Lífið

Ef Vínland hefði ekki verið afnumið

Illugi Jökulsson skrifar
Hún var síðust frá landi. Karlarnir voru allir komnir um borð í bátinn sem ruggaði háskalega í fjöruborðinu og þá loksins arkaði hún út í sjóinn og var komin upp í mitti þegar stafnbúi kippti henni um borð. Svo tóku karlarnir til áranna og reru sem hraðast út að knerrinum þar sem menn voru þegar farnir að búa sig undir að hífa upp segl og leggja af stað til Grænlands. Stúlkan leit af knerrinum og aftur til lands. Ósköp virtust búðirnar lítilfjörlegar svona utan frá sjó. En hún hafði hafst þarna við þrjú ár og unað sér vel. Landkostir voru svo allt öðruvísi en heima á Grænlandi, þarna var gróðursælt, óteljandi framandlegar jurtir og forvitnileg dýr á kreiki og tré, það sem hún var farin að unna trjánum. En trén voru líka varasöm, Skrælingjarnir földu sig milli þeirra og runnu næstum saman við þau, og þegar vont var á milli þeirra og Grænlendinga gátu þeir þegar minnst varði ráðist út á milli trjánna og á búðirnar þar sem stúlkan og hennar fólk bjó. Síðasti vetur hafði verið erfiður, stöðugar skærur og árásir. Því hafði foringi búðanna ákveðið að nú tækju þau sig upp í sumarlok og héldu heim til Grænlands aftur. Til frambúðar.

Stúlkan hafði orðið öskureið þegar hún frétti þetta. Henni fannst karlarnir ræflar að reyna ekki að semja um frið við Skrælingjana, nú, eða sigra þá í bardaga, ef ekki vildi betur til. Það var lítilmótlegt að yfirgefa Vínland í eitt skipti fyrir öll, þetta víðáttumikla landkostaland, og ætla heim til Grænlands á ný þar sem öllum bar saman um að væri farið að kólna og jöklarnir að skríða fram og fólkið yrði innilokað í nöturlegum húsum sínum stóran hluta ársins. Karlarnir tuldruðu að vísu að eflaust kæmu þau aftur næsta sumar en stúlkan trúði því varlega. Þeir höfðu látið hirða allt steini léttara úr búðunum og brjóta dyr á hverju húsi svo það var augljóst að þangað gæti enginn leitað á næstunni.

Hún gnísti tönnum. Allur dugur virtist úr þessum körlum. Fyrsta sumarið hennar í búðunum hafði hún fengið að fljóta með í siglingu með knerrinum suður á bóginn þangað sem átti að leita loðdýra og hún hafði gapað yfir þeim lokkandi fögru ströndum sem þau sigldu meðfram og skógunum sem sífellt urðu hærri og þéttari og að lokum höfðu þau siglt upp fremur þröngan árós þar sem síðan opnaðist breiður flói og vítt langt og fagurt allt umhverfis og mjó eyja sem virtist beinlínis kalla á að þar yrðu settar upp búðir. En karlarnir þorðu varla í land, þeir bentu óttaslegnir á reyk sem steig upp frá byggðum Skrælingja kringum flóann, og eftir að hafa náð í örfá veiðidýr flýttu þeir sér aftur til skips og réru sem hraðast út flóann og sigldu norður til búða sinna. Og fóru ekki aftur slíka ferð þótt stúlkan væri sífellt að suða um að fá á ný að sjá eyjuna og tala nú ekki um slóðirnar ennþá sunnar, hún botnaði ekki í af hverju karlarnir þverskölluðust við að rannsaka þessar blómlegu slóðir, af hverju þeir vildu heldur lúpast með skottið milli lappanna heim til Grænlands? Þung í hjarta horfði stúlkan á strendur Vínlands fjarlægjast og sá að tveir Skrælingjar voru komnir út úr skóginum og stefndu hikandi til búðanna að vita hvort allir væru virkilega að yfirgefa staðinn.

Lúpast frá allsnægtunum

Þessi uppdiktaða mynd af því þegar norrænir menn frá Grænlandi og Íslandi fóru í síðasta sinn frá búðum sínum á Vínlandi einhvern tíma snemma á elleftu öld, gæti hún staðist? Skriflegar frásagnir gefa til kynna að landvist norrænna manna hafi verið stutt og engar fornleifar hafa fundist í jörðu sem mæla því mót. Búðirnar við L'Anse aux Meadows á Nýfundnalandi voru til dæmis augljóslega ekki lengi í notkun. Sjálfum hefur mér alltaf þótt þetta í meira lagi skrýtið, og ansi mikil niðurlæging í raun og veru fyrir minningu víkinga. Okkur er kennt að þeir hafi verið djarfir og ódeigir og aldrei óttast sjóndeildarhringinn. Svo finna þeir heilt meginland, alveg óþekkt í þeirra heimshluta, augsýnilega gríðarstórt og landkostir frábærir, hlíðin fríð og vínber og einhvers staðar í öllu flæmi hljóta að leynast gull og gimsteinar – en nei, þá snúa þessir afkomendur víkinganna frá, lúpast til baka frá allsnægtunum og kjósa heldur að hokra …á Grænlandi! Þar sem þó kom svo átakanlega vel í ljós aðeins fjórum öldum síðar að þeir kunnu ekkert að búa, því þeir gufuðu upp eins og jörðin hefði gleypt þá en önnur þjóð kom í staðinn sem kunni á staðháttu í landinu kalda.

Reyndar er vitað að Grænlendingar héldu áfram að sækja timbur til Marklands næstu aldir, en af hverju hættu þeir og Íslendingar við alvöru landnám í Ameríku, sem svo var seinna kölluð? Hræðsla við fáeina Skrælingja, var það allt og sumt? Norðausturhluti Kanada voru ekki þéttbyggðar slóðir um það leyti sem Grænlendingar stöldruðu við á Hellulandi, Marklandi og Vínlandi, sem þeir kölluðu. Eða höfðu þeir enga þörf á þeim landkostum sem Ameríka bauð upp á? Var svona blómlegt á Grænlandi þá? Já, vissulega var hlýrra þá en löngum seinna, en samt! Að snúa baki við Ameríku er skrýtin ákvörðun hjá fólki sem um aldir höfðu verið mestu siglingamenn og landkönnuðir heimsins, og djörfustu kaupahéðnar.

Járn og sóttkveikjur

En setjum nú svo að norrænir hefðu hvergi farið, heldur hefðu hafið alvöru landnám á nýju ströndinni, fyrst á Vínlandi og svo víðar? Hvernig hefði það getað endað? Það má setja fram nokkrar hugmyndir, sem allar eru auðvitað út í loftið – en hefðu þó kannski getað orðið að veruleika, ef fleiri norrænir menn hefðu verið jafn spældir yfir því að þurfa að yfirgefa Ameríku og stúlkan sem ég bjó til í upphafi greinarinnar.

Í fyrsta lagi. Jafnvel þó norrænir menn hefðu náð góðri fótfestu á nokkrum stöðum á ströndinni er ekki ástæða til að ætla að verulegt landnám frá öðrum hlutum Evrópu hefði hafist næstu aldirnar. Það var engin sérstök hvöt til brottflutninga hjá alþýðu og ríkin sjálf voru ekki öflug, miðað við það sem síðar varð. Því hefðu byggðir norrænna sjálfsagt vaxið hægt og rólega fyrstu aldirnar.



En ef þær hefðu náð að dafna að ráði, þá er líklegt að landnemarnir í Vínlandíu (sem ég leyfi mér að kalla svo) hefðu fyrr en síðar náð undirtökunum á sínu svæði og undirokað „Skrælingja“. Vínlandíumenn voru engin tæknitröll en höfðu þó vopn úr járni og ýmislegt annað en heimamenn þekktu lítt til, og það sem afdrifaríkast var: Í farangri þeirra biðu sömu sóttkveikjurnar og áttu í alvörunni eftir að útrýma meira en helmingi allra Indíána eftir að Kólumbus lenti í Karíbahafi 1492. Mannfallið eftir landnámið í Vínlandíu hefði kannski ekki orðið jafn hratt og það sem gerðist í rauninni fjórum öldum seinna, en frumbyggjar í Norðaustur-Ameríku og síðan suður með austurströndinni hefðu áreiðanlega ekki haft þrek til að standa gegn vaxandi útrás Vínlandíumanna vestur og suður. Og það má alveg reikna með að Vínlandíumenn hefðu líka byggt borg í árósunum sem stúlkan mín sá svo eftir (sú er heitir nú í rauninni New York) og stýrt þaðan frekari landvinningum.



Og svo má fastlega reikna með að þó norskur kóngur kynni að hafa viljað hafa stjórn á hinum vaxandi byggðum í vestri hefðu Vínlandíumenn fljótlega skorið á þau tengsl, sameinað sínar byggðir og brátt stofnað traustlegt ríki. Og Grænland og Ísland fengið að fljóta með upp á gamlan kunningsskap.



Indíánaborgin Kahokía

En Vínlandíumenn voru samt fámennir til að byrja með og nú vill svo til að inni á sléttum þessa nýja meginlands var einmitt furðu háþróuð menning sem hverfðist um borgina Kahokíu þar sem bjuggu allt að 40.000 manns um árið 1200. Sú borg var til í raun og veru, og sú menning, þó hún stæði ekki lengi. Ef vel skipulagðir járnbítandi Vínlandíumenn hefðu verið komnir alla leið í útjaðar sléttunnar um þær mundir, er þá svo fráleitt að láta sér detta í hug að Indíánaættbálkarnir hefðu streist hressilega á móti, lært járnvinnslu og hestamennsku af Vínlandíumönnum og stofnað eigin ríki sem hefði vel staðist þeim norrænu snúning? Og alltaf fleiri Indíánaættbálkar gengið til liðs við Kahokíumenn og þá hefði ekki þurft að vera neinn sérstakur munur á tæknikunnáttu ríkjanna tveggja til frambúðar? Og ríkin tvö sífellt að reyna að stinga augun hvort úr öðru?



Ó, þær styrjaldir sem háðar hefðu verið á sléttunum næstu aldirnar! Ó, allt það riddaralið!



Og enn sunnar: Forvitnir landkönnuðir frá Vínlandíu sigldu fram á furðulega menningu við risastóran flóa í suðrinu og stallapíramídar Maya vöktu mikla lukku þegar landkönnuðirnir settust gráskeggjaðir í helgan stein og sögðu börnum ævintýri sín í hinu gamla ættlandi Íslandi, sem nú var ekki annað en útkjálki hinnar öflugu Vínlandíu, byggð orðin strjál þar, enda kostur á öðru betra í vestri fyrir íbúana. Mayar hrundu náttúrlega líka niður í sóttum og misstu ríki sitt í hendur grimmra aðkomumanna úr norðri, Azteka, en Aztekar voru svo fjarri Vínlandíu og herrum þar – sem gerðust brátt helstil herskáir – að þeir höfðu tóm til að byggja ríki sitt í friði, en senda þó fólk til Evrópu að læra þar nauðsynlega stríðstækni svo enginn Cortéz mundi koma þeim á óvart og fella stórveldið á nokkrum misserum.




Nei, ef konkvistadorar reyndu að lenda myndi hið fræga fallbyssulið Azteka senda þá öfuga útí sjó.


Oxidanía og Inkasía



Enda var það náttúrlega svo að þegar Vestur-Evrópumenn hófu siglingar yfir hafið voru öflug ríki alls staðar fyrir, frá Vínlandíu í norðri til Aztekaríkis í suðri og Nýi Spánn varð aldrei annað en smáríki á mótum heimsálfanna tveggja, Oxidaníu (eða Vesturálfu) og Inkasíu í suðri …




Já, ég veit að þetta er fantasía. En hún er þó ekki eins vitlaus og hún lítur út fyrir að vera. Ef norrænir hefðu ekki lúpast burt, heldur komið sér til frambúðar fyrir á Vínlandi og úr hefði orðið alvöru byggð og síðar ríki, þá hefði svo ótal margt breyst. Og það sem ég hef lýst hefði til dæmis alveg getað orðið veruleikinn.







Fleiri fréttir

Sjá meira


×