Innlent

Ef flugið leggst af gætu sveitarfélög farið í eyði

BBI skrifar
Ákvörðun flugfélagsins Ernis um að hætta áætlunarflugi til minni áfangastaða á Íslandi gæti reynst örlagarík. Ef flugfélagið hættir til að mynda að fljúga til Gjögurs er hætt við að ekki verði lífvænlegt á veturna í gervöllum Árneshreppi á Ströndum.

Framkvæmdastjóri flugfélagsins Ernis fullyrðir við Vísi að allt stefni í að flugi til nokkurra minni áfangastaða verði hætt vegna fjármála.

Árneshreppur á Ströndum er einn þeirra áfangastaða sem Ernir hefur flogið til. Á veturna lokast allar leiðir til og frá hreppnum nema flugleiðin. Vegir verða ófærir og íbúar hafa stólað á áætlanaflug Ernis, bæði hvað samgöngur varðar og vörusendingar.

„Þetta getur haft örlagaríkar afleiðingar fyrir sveitarfélagið. Ef þeir hætta að fljúga eru bara engar samgöngur hingað yfir veturinn. Því vegurinn er þannig að honum er ekkert haldið opnum nema kannski einhvern tíma og einhvern tíma," segir Guðbjörg Þorsteinsdóttir, íbúi í Árneshreppi. „Við getum ekki stólað á það að komast landleiðina."

Vegagerðin hefur gefið út að reynt verði að opna veginn frá Árneshreppi að Hólmavík tvisvar í viku fram að jólum en eftir það er ekki á vísan að róa með það hvort reynt verður að halda veginum greiðfærum. Auk þess getur veðráttan verið slík að vegurinn lokist jafnvel þó Vegagerðin reyni sitt besta. „Þetta eru 100 km sem þarf að opna héðan og til Hólmavíkur. Svo að ef að snjór er þá snjóum við inni," segir Guðbjörg.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×