Innlent

Dýrar rannsóknarnefndir

Höskuldur Kári Schram skrifar
Ragnheiður Ríkharðsdóttir, formaður þingflokks sjálfstæðismanna, vill herða reglur varðandi rannsóknarnefndir Alþingis og segir nauðsynlegt að setja fastan ramma utanum lengd og rekstrarkostnað slíkra nefnda.

Alþingi skipaði tvær rannsóknarnefndir árið 2011. Annars vegar til að rannsaka Íbúðalánasjóð og hins vegar til að rannsaka fall sparisjóðanna. Íbúðalánasjóðsnefndin skilaði skýrslu í sumar, töluvert á eftir áætlun, en sparisjóðanefndin hefur enn ekki lokið störfum.

Kostnaður vegna þessara nefnda hefur farið langt fram úr áætlun. Fram kemur í frumvarpi til fjáraukalaga sem lagt var fram á Alþingi á miðvikudag að heildarkostnaður er kominn upp í rúmar 800 milljónir.

Ragnheiður Ríkharðsdóttir, formaður þingflokks sjálfstæðismanna, vil endurskoða lög og reglur varðandi rannsóknarnefndir og meðal annars setja nefndum þrengri tíma- og fjárhagsramma.

„Það er algjörlega ljóst að við getum ekki leyft okkur, hvort sem við eigum fullt af peningum eður ei, að setja á fót rannsóknarnefndir sem hafa svona víðtækar heimildir til tímafrestunar, til rannsókna og fjármagns,“ segir Ragnheiður og vill að Alþingi skoði málið. „Það má vera einhver sveigjanleika í tímaramma og einhver sveigjanleiki í fjármagni en ekkki upp á mörg hundruð milljónir.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×