Körfubolti

Durant hefði ekki farið til Golden State ef liðið hefði orðið meistari

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Kevin Durant.
Kevin Durant. Vísir/Getty
Stærstu félagsskipti sumarsins í NBA-deildinni í körfubolta voru án vafa þegar Kevin Durant ákvað að yfirgefa Oklahoma City Thunder og semja við stjörnuprýtt lið Golden State Warriors.

Kevin Durant var kosinn besti leikmaður NBA-deildarinnar tímabilið 2013-14 og Golden State Warriors liðið setti nýtt met yfir sigurleiki á síðasta tímabili. Eitt allra besta lið deildarinnar var því að bæta við sig einum besta leikmanninum.

Þrátt fyrir metið í deildarkeppninni urðu leikmenn Golden State Warriors að sætta sig við það að tapa í lokaúrslitunum á móti Cleveland Cavaliers. Golden State tapaði úrslitaeinvíginu en tryggði sér um leið einn heitasta bitann á NBA-markaðnum.

Kevin Durant fór yfir það sem hann var að hugsa þegar hann horfði á sjöunda leikinn þar sem Golden State Warriors og Cleveland Cavaliers spiluðu hreinan úrslitaleik um NBA-titilinn.

„Ég var eins og lítill krakki því mér langaði virkilega að spila með þessum strákum. Ég myndi fá galopin þriggja stiga skot og ég gæti hlaupið upp og niður völlinn og fengið galopin sniðskot að launum," sagði Kevin Durant og sagðist nánast hafa verið að grátbiðja umboðsmanninn um að hjálpa sér að komast til Golden State Warriors.

Golden State Warriors komst í 3-1 í úrslitaeinvíginu og þá leit ekkert út fyrir það að Cleveland Cavaliers væri að fara að vera NBA-meistari eða að Kevin Durant væri á leiðinni til Oakland.

„Eftir að þeir töpuðu í lokaúrslitunum þá varð þetta raunverulegra með hverjum deginum. Ég fór að hugsa meira og meira um þetta og þegar ég settist niður með þessum strákum þá var ég strax sannfærður," sagði Durant.

„Við þurfum ekki að tala um það sem hefði gerst ef þeir hefðu unnið titilinn. Þeir náðu ekki að klára dæmið og komu á eftir mér. Það má kannski segja að ég sé bara feginn að þeir töpuðu,“ sagði Durant.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×