Innlent

Dularfulla kartöflumjölsmálið leyst: Pokarnir leikmunir í Morfís

Nanna Elísa Jakobsdóttir skrifar
Pokarnir fóru aldeilis í ferðalag eftir Morfís viðureign MS og Verzló.
Pokarnir fóru aldeilis í ferðalag eftir Morfís viðureign MS og Verzló. Mynd/Haukur/Klara
Dularfullu kartöflumjöls- og flórsykurpokarnir sem fundust á Hendrix voru nýttir sem leikmunir í úrslitaviðureign Morfís föstudaginn 24. apríl.

„Ég sá þetta og þetta er hundrað prósent það sem við gerðum,“ segir Klara Óðinsdóttir, þjálfari ræðuliðs Menntaskólans við Sund sem keppti í úrslitum á móti Verzlunarskóla Íslands hlæjandi. Umræðuefnið í keppninni var lögleiðing fíkniefna.

Pokarnir fundust á Hendrix undir bekk og var lögregla kölluð til að skera úr um efnin.

„Við vorum með og vorum með grínræðu um Verzlinga, líkt og þeir væru að beita hræðsluáróðri og teldu að allt yrði vaðandi í fíkniefnum ef þau yrðu leyfð og hentum pokunum yfir salinn, 200 stykkjum.“  Klara þekkir pokana vel en hún fyllti þá ásamt Kristínu Lilju Sigurðardóttur, liðsstjóra ræðuliðs MS, í aðdraganda keppninnar. Grínatriðið var í seinni hluta keppninnar en það var meðmælandi MS-inga, Sólrún Freyja Sen sem dreifði pokunum um salinn.

Klara segir greinilegt að síðan hafi einhverjir Verzlingar tekið pokana með sér í gríni en hún vissi til þess að einhverjir þeirra ætluðu á Hendrix að keppninni lokinni.

 „Okkur finnst leiðinlegt að hafa valdið heilabrotum. Ég var búin að láta forvarnarfulltrúann í MS vita að við ætluðum að vera með svona grín og allt,“ útskýrir hún en liðið bjóst aldrei við að pokarnir myndu valda vandræðum og það var ekki tilgangur þeirra. „Ég hefði ekki viljað bera ábyrgð á því að einhver snortaði þetta og fengi sykursjokk,“ segir Klara og hlær.  


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×