Innlent

Drógu 38 tennur úr búrhvalnum

Gissur Sigurðsson skrifar
Búrhvalurinn fannst rekinn í fjörunni í Skarðsvík í Trékyllisvík á Ströndum fyrr í vikunni. hann verður líklega dreginn á haf út og sökkt vegna mengunar af hræinu.
Búrhvalurinn fannst rekinn í fjörunni í Skarðsvík í Trékyllisvík á Ströndum fyrr í vikunni. hann verður líklega dreginn á haf út og sökkt vegna mengunar af hræinu. Vísir/Bjarni Þorgilsson
Búrhvalurinn, sem fannst rekinn í fjörunni í Skarðsvík í Trékyllisvík á Ströndum fyrr í vikunni, verður líklega dreginn á haf út og sökkt vegna mengunar af hræinu.

Heimamenn hafa náð öllum tönnunum úr honum og leita nú kaupenda, en reðurinn var of laskaður til að hægt væri að gera hann að safngrip.

Hvalurinn fannst í flæðarmálinu á landi Finnbogastaða og segir Guðbrandur Albertsson, bróðir bóndans þar, að þetta hafi ekki verið hvalreki til fjár líkt og á fyrri árum. Tennurnar hafi þó náðst út í fyrrakvöld. „Við bundum band í skoltinn og drógum hann að á flóðinu. Svo fórum við með hnífa, axir og sagir og dráttarvél á fjörunni og hömuðumst á þessu þar til við náðum tönnunum úr.“

Guðbrandur segir að 38 tennur hafi náðst úr hvalnum. „Talið er að það er einhver eftirsókn sé í þetta. Það er þó ekki alveg komið á hreint ennþá.“

Hann segir ekki ástæðu til þess að óttast að hvalurinn fari að blása upp og springa í fjörunni. „Það er gat á honum og það var gat á honum þegar hann fannst þarna. Innyflin héngu út svo ég hugsa að hann blási ekki upp.“

Guðbrandur segir jafnframt að menn hafi rætt það að draga hvalinn út og sökkva honum á háflæði til að koma í veg fyrir að hvalurinn úldni með viðeigandi óþef og mengun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×