Lífið

Draumurinn rættist þegar Pippa hitti Sigur Rós

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Frá vinstri: Orri Dýrason, Georg Hólm, Pippa og Jónsi.
Frá vinstri: Orri Dýrason, Georg Hólm, Pippa og Jónsi.
Draumur Pippu, sjö ára gamallar stúlku frá Bandaríkjunum, rættist um helgina þegar hún hitti meðlimi uppáhaldshljómsveitar sinnar, Sigur Rós.

Eins og frægt er orðið lögðu liðsmenn hljómsveitarinnar til 600 þúsund krónur í söfnun Pippu fyrir ferð til Íslands með fjölskyldu sinni. Framlag Sigur Rósar varð til þess að mikið skrið komst á söfnun fyrir ferðinni og áður en yfir lauk söfnuðust um þrjár milljónir íslenskra króna. Pippa mætti til Íslands ásamt fjölskyldu sinni þann 22. nóvember.

Jónsi og Pippa fara yfir málin.Mynd/Fésbókarsíða Pippu
Fjölskyldan hefur farið víða hér á landi og um helgina hitti svo Pippa strákana í Sigur Rós. Pippa er mikill aðdáandi sveitarinnar.

„Ef við erum heppin þá koma dagar í lífi okkar sem munu aldrei líða okkur úr minni. Dagurinn í dag var þannig,“ segir móðir Pippu á Fésbókarsíðu Pippu. Þar lýsir hún þegar Pippa hitti Georg, Jónsa og Orra í upptökuhljóðveri Sigurrósar. Georg mætti ásamt eiginkonu sinni og dætrum en fjölskylda Orra forfallaðist vegna veikinda.

Orri og Pippa í góðum gír.Mynd/Fésbókarsíða Pippu
„Og svo var það Jónsi,“ skrifar móðir Pippu en sú stutta er mikill aðdándi söngvarans. Hún hafi notið þess að hitta Georg og Orra, sem verði vinir hennar um alla eilífð. Hins vegar hafi Jónsi fangað hjarta sjö ára snátunnar. Þannig hafi Jónsi mætt með Alex kærasta sinn og hundinn Atlas. Pippa er einmitt mikill hundaaðdándi þannig að það hafi fallið vel í kramið.

Pippa hafi svo laumað því að Alex að hún elskaði Jónsa. Alex hafi svarað að bragði: „Ég held að hann elski þig líka, Pippa.“

Móðir Pippu fullyrðir að meðlimir Sigur Rósar og umboðsmaðurinn Kári Sturluson séu eitthvert vingjarnlegasta fólk sem hún hafi hitt.

Georg og Orri ásamt fjölskyldu Pippu.Mynd/Fésbókarsíða Pippu
Það var glatt á hjalla í upptökuveri Sigurrósar.Mynd/Fésbókarsíða Pippu

Tengdar fréttir

Draumur Pippu um Íslandsför rætist

Pippa, sjö ára gömul flogaveik stúlka frá Bandaríkjunum, sem á sér þann draum heitastan að heimsækja Íslands, kemur til landsins á morgun ásamt fjölskyldu sinni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×