Erlent

Drap tveggja ára dóttur sína þar sem honum þótti hún fá of mikla athygli

Atli Ísleifsson skrifar
Ryan Lawrence og Maddox litla.
Ryan Lawrence og Maddox litla.
Bandaríkjamaðurinn Ryan Lawrence viðurkenndi í síðustu viku fyrir dómara í New York-ríki að hafa drepið tæplega tveggja ára dóttur sína í febrúar síðastliðnum. Saksóknarar sögðu Lawrence hafa þótt dótturina fá of mikla athygli eftir að hún sigraðist á krabbameini í auga og hafi það orðið til þess að hann banaði henni.

Morgan, móðir Maddox, brotnaði niður í réttarsalnum í New York-ríki þegar dómarinn las nákvæma og hryllilega lýsingu á því hvernig hinn 25 ára Lawrence fór með 21 mánaða dóttur sína á afskekktan stað, sló hana ítrekað með trékylfu, kom líki hennar fyrir í eldstæði þar sem hann brenndi líkið og trékylfuna og batt svo líkamsleifarnar við steypuklump og sökkti því í Onondaga-ánni.

Á möguleika á reynslulausn eftir 25 ár

Lawrence var dæmdur til 25 ára til lífstíðarlangrar fangelsisvistar. Hann mun fyrst eiga möguleika á reynslulausn að 25 árum liðnum.

Saksóknarar og lögmaður Lawrence sögðu fjölskylduna vilja komast hjá réttarhöldum ef Lawrence myndi gangast við morðinu og sitja inni í að lágmarki 25 ár.

Skildi eftir miða

Í frétt Washington Post um málið segir að Maddox og faðir hennar hafi horfið skyndilega í febrúar síðastliðnum. Lögregla lýsti þá eftir þeim og sögðu Maddox síðast hafa verið klædda hvítri peysu með myndum af brúnum hvolpum, bleikum buxum, kápu og prjónaðri húfu.

Morgan kom á sínum tíma fram í fjölmiðlum þar sem hún biðlaði til Ryan að snúa aftur með dóttur þeirra, en hann hafði þá skilið eftir miða sem benti til þess að hann kynni að meiða annað hvort sjálfan sig eða barnið.

Að neðan má sjá þegar Morgan biðlaði til barnsföður síns að skila dóttur þeirra.

Ryan fannst svo nokkrum dögum síðar og í kjölfarið lík Maddox litlu í ánni í bænum Syracuse.

Í skýrslum lögreglu segir að Ryan hafi þann 20. febrúar ekið konu sinni á fjölskyldubílnum í fataverslun þar sem hún starfaði. Ryan átti að sækja hana aftur síðar um daginn en mætti hins vegar aldrei. Hann hafði þá skilið bílinn eftir með lykla og miðann innan í. Í kjölfarið hófst svo mikil leit að feðginunum.

Að neðan má sjá Lawrence játa brot sitt.

Verjendur sögðu eftir að Lawrence hafði játað á sig glæpinn að hann væri niðurbrotinn og iðraðist gjörða sinna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×