Innlent

Draga úr hækkun bóta

Höskuldur Kári Schram skrifar
Dregið verður úr hækkun örorku- og atvinnuleysisbóta á næsta ári samkvæmt tillögu meirihluta fjárlaganefndar Alþingis. Breytingin á að spara um hálfan milljarð en formaður Öryrkjabandalags Íslands segir að tillagan sé skelfileg og bitni helst á þeim sem verst standa í samfélaginu.

Upphaflega stóð til að hækka atvinnuleysisbætur og bætur almannatrygginga um 3,5 prósent á næsta ári. Í breytingartillögu meirihluta fjárlaganefndar Alþingis er lagt til að dregið verði úr þessari hækkun og að hún verði þess í stað 3 prósent.

Meirihlutinn vísar í nýbirta þjóðhagsspá þar sem gert ráð fyrir minni verðlagshækkunum á næsta ári en fyrri spár reiknuðu með. Í heild á breytingin að spara tæpan hálfan milljarð.

Tillagan kemur öryrkjum á óvart en áður höfðu þeir gagnrýnt hina upphaflegu hækkun.

„3,5 prósent þótti okkur þegar of lítið. Að fara niður í 3 prósent er bara skelfileg tillaga,“ segir Ellen Calmon formaður Öryrkjabandalags Íslands.

Ellen segir að tillagan bitni helst á þeim sem verst standa í samfélaginu.

„Maður veltir því fyrir sér hvort að markmiðið sé þá að knésetja velferðina en ég vil og við viljum auðvitað trúa á ríkisstjórnina og að hún ætli að gera betur í þessum uppgangi sem boðaður hefur verið og vonandi fá örorkulífeyrisþegar líka að taka þátt í því,“ segir Ellen.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×