Erlent

Dönsk gleraugu Hollande fá Frakka til að sjá rautt

Atli Ísleifsson skrifar
Franskir gleraugnaframleiðendur eru allt annað en ánægðir með þessi nýju gleraugu franska forsetans.
Franskir gleraugnaframleiðendur eru allt annað en ánægðir með þessi nýju gleraugu franska forsetans. Vísir/AFP
Franskir gleraugnaframleiðendur eru allt annað en ánægðir með að forseti landsins skuli skarta nýjum gleraugum sem hönnuð eru af Dana. Telja þeir val forsetans vera óþjóðrækið þar sem stjórnvöld hafa að undanförnu hvatt landsmenn til að velja innlenda framleiðslu.

Frakkar tóku eftir því fyrir um hálfum mánuði að Francois Hollande hafi skipt út gömlu, frönsku gleraugum sínum fyrir ferköntuðum, gamaldags gleraugum, framleiddum af danska fyrirtækinu Lindberg.

Á vef Telegraph segir að gleraugnaframleiðandinn Roussilhe frá Nantes hafi í kjölfar tíðindanna ákveðið að senda Hollande par af sambærilegum gleraugum en sem ættu það fram yfir að vera frönsk framleiðsla.

Með gleraugunum fylgdi bréf þar sem Frakkarnir lýstu yfir áhyggjum af þeirri erlendu samkeppni sem þeir byggju við og minntust á nauðsyn þess að styðja almennt við innlenda framleiðslu. „Með því að skarta okkar gleraugum verður þú sendiherra franskra gleraugna alls staðar í heiminum,“ sagði meðal annars í bréfinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×