Viðskipti innlent

Djúpborun á Reykjanesi: Hægt að vinna meiri orku á ódýrari og umhverfisvænni hátt

erla björg gunnarsdóttir skrifar
Það er mat forsvarsmanna HS Orku að öll markmið djúpborunarverkefnisins á Reykjanesi hafi náðst. Verkefnið gefur góð fyrirheit um að hægt sé að vinna umtalsvert meiri orku á svæðinu en áður var talið mögulegt – og það á umhverfisvænni hátt og með minni kostnaði.

Holan nær nú niður á tæplega fimm kílómetra dýpi og er dýpsta hola á jarðhitasvæði í heiminum.

Fyrsta djúpborunarholan var boruð í Kröflu árið 2009. Síðustu fimm mánuði hefur HS orka gert tilraunir til að bora aðra djúpborunarholu.

Í dag var boðað til hádegisfundar í Gamla bíó þar sem greint var frá þeim áfanga að borholan næði nú 4.650 metra dýpi.

Ásgeir Margeirsson, forstjóri HS Orku, segir að tilgangurinn með verkefninu sé að vinna meiri orku úr hverri holu sem boruð er. Þannig megi minnka umhverfisáhrifin og vonandi lækka kostnaðinn við orkuframleiðsluna.

„Hins vegar má segja það að það sé svolítil forvitni að vita hvað er fyrir neðan kerfi sem við erum að vinna í dag. Er það heitara eða orkuríkara, er heppilegra að nýta það?“ segir Ásgeir.

Fyrsta áfanga er lokið. Að bora svo djúpa holu. Nú taka við fjölbreyttar rannsóknir á hvort hægt sé að nýta holuna sem vinnsluholu, sem myndi opna nýja vídd í vinnslu jarðhita. Þegar niðurstöður liggja fyrir er stefnt að því að bora þriðju holuna og verður það í höndum Orkuveitu Reykjavíkur.

Hildigunnur Thorsteinsson, framkvæmdastjóri þróunar hjá Orkuveitu Reykjavíkur, segir djúpborun geta haft mikið vægi í umhverfisverndarmálum.

„Þetta er dýpsta jarðhitahola sem hefur verið boruð í heiminum og gefur okkur möguleika á að stækka vinnslusvæðin okkar niður í staðinn fyrir út til hliðanna og þannig minnka umhverfisfótspor okkar. Það er ein af ástæðum þess að við erum virkir samstarfsaðilar og höfum verið frá upphafi verkefnisins og ætlum að halda áfram,“ segir Hildigunnur.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×