Innlent

Davíð vill meina að þöggun ríki um Guðna: „Ef ég hefði sagt það þá hefðu báðar fréttastöðvarnar mætt heim til mín“

Birgir Olgeirsson skrifar
Frá forsetakappræðum Stöðvar 2 í kvöld.
Frá forsetakappræðum Stöðvar 2 í kvöld. Vísir/Eyþór

Forsetaframbjóðendur voru spurðir hvort þeim þætti kosningabaráttan hafa verið drengileg í kappræðum frambjóðenda á Stöð 2 í kvöld.

Flestir voru á því að svo hefði verið en Davíð Oddsson sagðist greinilega hafa verið í annarri kosningabaráttu en hinir því farið hefði verið yfir allan feril hans 40 ár aftur í tímann en hins vegar væri tekið á Guðna Th. Jóhannessyni eins og hann væri að koma beint af fæðingardeildinni.

Andri Snær Magnason hafði fyrr í þættinum sagt að áhugaleysi ungs fólks á kosningunum mætti mögulega rekja til þess að umræðan í baráttunni hefði að mestu snúist um Icesave og þorskastríðið.

Icesave stærsta mál embættisins

Davíð sagði að það yrði að vera hægt að ræða þessi mál og sagði Icesave-málið til að mynda það stærsta sem rekið hefur á forsetaembættið þar sem þjóðin tók sína ákvörðun með forsetanum.

Hann sagði það vera slæmt að ekki mætti ræða að einn frambjóðandinn, og átti þar við Guðna Th, hefði hvatt þjóðina til að samþykkja Svavars-samninginn svokallaða og að sami frambjóðandi, Guðni Th. hefði talað um kjósendur sem fávísan lýð.

„Ef ég hefði sagt það þá hefðu báðar fréttastöðvarnar mætt heim til mín og spurt hvenær ég myndi hætta í framboði,“ sagði Davíð.

Hann sagði kjósendur verða að þekkja forsetann sem það ætlar að kjósa og að hann geti ekki hlaupið frá skoðunum sínum í viðkvæmustu málunum.

„Höfum báðir talað um fávísan almenning“

Guðni Th. sagði að það væri sama hvað hann myndi segja, hann væri ekki að fara sannfæra Davíð um að það sem hann sagði um Guðna væri rangt.

„Við höfum báðir talað um fávísan almenning, hann á Alþingi og ég í erindi,“ sagði Guðni og sagðist hafa verið álitsgjafi í hruninu og höfundur Hrunsins, það er að segja bókarinnar um hrunið.

Hann sagði það ekki rétt að sínu mati að segja fjölmiðla standa að þöggun um hans verk því fjallað væri um Guðna á síðu eftir síðu í Morgunblaðinu, hvar Davíð er ritstjóri en í sumarfríi á meðan hann er í framboði.


Tengdar fréttir

Guðna líkt við Donald Trump í leiðara Morgunblaðsins

Guðna Th. Jóhannessyni forsetaframbjóðanda er líkt við Donald Trump í leiðara Morgunblaðsins í dag. Eins og venja er er leiðarinn nafnlaus en Davíð Oddsson sem einnig er í framboði til forseta Íslands er ritstjóri Morgunblaðsins.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×