Lífið

Daníel Bjarnason á næstu plötu Sigur Rósar

Tónskáldið Daníel Bjarnason vinnur með Sigur Rós á næstu plötu sveitarinnar. Georg Holm lýsir honum sem snillingi.
Tónskáldið Daníel Bjarnason vinnur með Sigur Rós á næstu plötu sveitarinnar. Georg Holm lýsir honum sem snillingi.
"Við unnum smá verkefni með honum um daginn og það var alveg rosalega gaman, hann er algjör snillingur. Hann verður alveg pottþétt hluti af plötunni,“ segir Georg Holm, bassaleikari Sigur Rósar.

Tónskáldið Daníel Bjarnason mun vinna með Sigur Rós á næstu plötu sveitarinnar. Bassaleikarinn segir meðlimi sveitarinnar hafa klárað nokkra grunna að lögum en vildi ekki staðfesta neinar tölur í þeim efnum. Fréttablaðið hafði heyrt tölunni níu fleygt fram. "Þau gætu verið fleiri og þau gætu verið færri,“ segir Georg en hann var staddur í Tyrklandi í fríi þegar Fréttablaðið náði tali af honum.

Sigur Rós hefur legið í dvala í dágóðan tíma enda var söngvarinn þeirra, Jón Þór Birgisson, að einbeita sér að sólóferli sínum. Georg viðurkennir að fríið hafi gert þeim gott. "Það var fínt að gera ekkert tónlistartengt í smá tíma, bara anda og hafa gaman.“ Alvara lífsins tekur hins vegar við í þarnæstu viku þegar vinna hefst að nýju. Bassaleikarinn vildi ekki gefa upp neina nákvæma dagsetningu á útgáfu þótt umboðsmennirnir væru eflaust tilbúnir með þær. Og hann boðar nýja tíma hjá Sigur Rós. "Platan verður full af leikgleði eins og á þeirri síðustu en við erum að feta nýjar slóðir, jafnvel aðrar slóðir en við höfum nokkurn tímann fetað.“

- fgg





Fleiri fréttir

Sjá meira


×