Innlent

Dagur sagður ljúga á póstlista

Stefán Rafn Sigurbjörnsson skrifar
Sjálfstæðismenn gagnrýndu borgarstjóra harðlega. Fréttablaðið/Vilhelm
Sjálfstæðismenn gagnrýndu borgarstjóra harðlega. Fréttablaðið/Vilhelm
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins segja Dag B. Eggertsson borgarstjóra halda úti pólitískri fréttaveitu með vikulegum póstlista sínum. Á borgarstjórnarfundi í gær var Dagur sagður bera lygar upp á Áslaugu Friðriksdóttur borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins.

Í vikulegum póstvettvangi sagði Dagur Áslaugu boða róttæka einkavæðingu í velferðarkerfi borgarinnar í Föstudagsviðtali Fréttablaðsins. Í viðtalinu sagði Áslaug að hún teldi að bjóða þurfi út meiri rekstur á velferðarþjónustu borgarinnar.

Í kjölfar fundarins sendi borgarstjórnarflokkur Sjálfstæðisflokksins skrifstofu borgarstjóra spurningalista í sex liðum: 

1. Er tölvupóstkerfið og listi yfir viðtakendur sem borgarstjóri notar í vikulega pósta sína eitthvað tengt tölvupóstkerfi eða gagnagrunnum borgarinnar?

2. Var starfsfólk borgarinnar sett á lista yfir viðtakendur án þess að hafa skráð sig sérstaklega á þann lista?

3. Er tilhögun póstsendinganna og lista yfir viðtakendur í samræmi við reglur um persónuvernd?

4. Er réttlætt að senda út slíka tölvupósta á allan þann fjölda þar sem eingöngu sé um að ræða hlutlæga upplýsingaveitu embættisins borgarstjóra um það sem er að gerast í borginni?

5. Er talið falla þar undir að borgarstjóri noti þann vettvang í eigin pólitísku skoðanir og jafnvel einhliða brigslyrði gagnvart pólitískum andstæðingum sem hafa ekki tök á að verja sig á sama vettvangi?

6. Getur minnihluti borgarstjórnar fengið sama póstaðgang að borgarstarfsmönnum í sínum pólitíska tilgangi?




Fleiri fréttir

Sjá meira


×