Handbolti

Dagur hefur engar áhyggjur af eftirmanni sínum

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Dagur og Christian Prokop.
Dagur og Christian Prokop. Vísir/EPA
Christian Prokop, þjálfari Leipzig í þýsku úrvalsdeildinni, verður eftirmaður Dags Sigurðssonar sem þjálfari þýska landsliðsins eins og áður hefur komið fram.

Þetta hefur legið í loftinu í langan tíma en Prokop var formlega kynntur til sögunnar sem nýr þjálfari á stjörnuleik þýsku deildarinnar á föstudag, þegar Dagur var formlega kvaddur og honum þakkað fyrir vel unnin störf.

„Hann passar vel við liðið og ég hef engar áhyggjur af þessu. Liðið er óbreytt og mun áfram ná árangri næstu árin,“ sagði Dagur um nýja þjálfarann í samtali við þýska fjölmiðla.

Dagur náði frábærum árangri með lið Þýskalands. Hann gerði Þjóðverja óvænt að Evrópumeisturum fyrir rúmu ári síðan og vann svo brons með liðinu á Ólympíuleikunum í Ríó í sumar.

Dagur viðurkennir að hann muni sakna þess að vera með lið sitt í stórum leikjum og að þjálfa landslið sem er í hæsta gæðaflokki.

„Ég veit að ég er að fara að taka við landsliði sem er ekki sama gæðaflokki og getur aldrei komist í hann,“ sagði Dagur sem tekur nú við þjálfun japanska landsliðsins.

„Ég á mér enga útópíska drauma um að ég fari með lið Japan í fremstu röð í heiminum á næstu árum.“

Hann óskar sér þess að koma Japan á HM í handbolta og að liðið dragist þá í riðil með Þýskalandi.

„Það væri draumur minn. Að vera með lið Japans fyrir framan þýska áhorfendur,“ sagði Dagur enn fremur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×