Handbolti

Dagur ætlar með Þjóðverja á toppinn

Dagur á hliðarlínunni með Þjóðverjum.
Dagur á hliðarlínunni með Þjóðverjum. vísir/getty
Landsliðsþjálfari Þýskalands, Dagur Sigurðsson, er metnaðarfullur þjálfari og hann veit hvert hann stefnir með liðið.

Hann vill fara með liðið á toppinn og vinna verðlaun með þýska landsliðinu. Dagur er með langtímamarkmið en segir að tækifærin gæti gefist fyrr.

„Við erum með marga góða leikmenn og við stefnum á toppinn á endanum. Það er þangað sem við viljum fara," segir Dagur sem vill festa lið Þjóðverja í sessi sem eitt af fjórum bestu liðum heims.

„Hvort sem það er á HM, EM eða Ólympíuleikunum. Við viljum vera með þeim bestu. Stundum kemur tækifærið óvænt og þá verðum við að nýta okkur það."

Þjóðverjar, rétt eins og Íslendingar, ætla að reyna að tryggja sig inn á ÓL í Ríó í janúar.

„Ég hugsa oft um Ólympíuleikana og held að strákarnir geri það líka. Það er mesta afrek íþróttamanna að komast á Ólympíuleikana og ég held að ferill íþróttamanna sé ekki fullkomnaður fyrr en hann hefur spilað á Ólympíuleikunum."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×