Innlent

Daginn lengt um eina og hálfa klukkustund

Frá Þingvöllum. 24. janúar er sá dagur þar sem mestar líkur eru á meira en 15 stiga frosti á Íslandi.
Frá Þingvöllum. 24. janúar er sá dagur þar sem mestar líkur eru á meira en 15 stiga frosti á Íslandi.
Skammdegið víkur nú hratt og hefur daginn lengt um meira en eina og hálfa klukkustund frá því dagur var stystur þann 22. desember. Þá telst 24. janúar vera sá dagur þar sem mestar líkur eru á meira en 15 stiga frosti á Íslandi.

Landsmenn finna nú óðum fyrir því, bæði þegar þeir halda til vinnu á morgnana, og enn frekar þegar heim er haldið síðdegis, hvernig daginn er að lengja. Tölurnar úr Almanaki Háskólans sýna okkur að miðað við vetrarsólstöður 22. desember birtir nú hálftíma fyrr á morgnana og síðdegis helst birtan nú klukkustund lengur.

Þannig var myrkur í Reykjavík klukkan 16.49 þegar dagur var stystur en í dag telst komið myrkur klukkan 17.49, eða nákvæmlega klukkustund síðar. Og upp úr þessu fer daginn að lengja hraðar eða um fjórar til sex mínútur á dag og þann 1. febrúar verða 40 mínútur búnar að bætast við birtutímann á dag til viðbótar.

Sólin er einnig að hækka á lofti. Þannig var sólarhæð í Reykjavík aðeins 2,7 gráður yfir sjóndeildarhring þann 22. desember en í dag mun sólin ná upp í 6,5 gráður yfir sjóndeildarhring í Reykjavík klukkan 13.40. Sólin verður svo komin upp í 15 gráður þann 20. febrúar og þá fer hún að bræða snjó að ráði.

Hækkandi sól fylgja meiri hlýindi og þannig var meðalhiti febrúarmánaðar nærri einni gráðu hærri en í janúar í Reykjavík á tímabilinu frá 1960 til 1990. Og dagurinn í dag, 24. janúar, er sá dagur á Íslandi þar sem mestar líkur eru á meira en 15 stiga frosti einhverstaðar á landinu, að sögn Trausta Jónssonar veðurfræðings.

Þetta þýðir þó ekki að hægt sé að líta á þennan dag sem kaldasta dag ársins og að upp úr þessu fari að hlýna. En hver skyldi þá vera kaldasti dagur ársins að meðaltali á Íslandi? Við þeirri spurningu fæst ekki einfalt svar, segir Trausti.

Ef litið er á meðaltal áranna 1960 til 2011 í Reykjavík er aðfangadagur 24. desember kaldasti dagur ársins. Ef tímabilið 1846 til 2011 í Stykkishólmi er hins vegar skoðað er 25. febrúar kaldasti dagur ársins. Hafísár viðhalda kulda fram eftir vetri og telur Trausti köld hafísár geta skýrt kaldasta daginn svo seint í febrúar á lengra tímabilinu. Hann segir íslenska veturinn flatan og hitinn sé í lágmarki allt frá 20. desember til 10. mars og dæmi séu um að kaldasti dagur ársins sé í apríl. Ef til væri 1.000 ára meðaltalsmæling myndi Trausti giska á að kaldasti dagurinn á Íslandi væri á tímabilinu frá 25. janúar til 10. febrúar.

Kannski er best að hugga sig við, meðan við þreyjum þorrann, að brátt fer að hilla undir vorið, því nú eru innan við þrír mánuðir í sumardaginn fyrsta, sem í ár verður þann 19. apríl.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×