Innlent

Dæmdur í 10 mánaða fangelsi fyrir að flytja kókaín til landsins í golfkylfum

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Málið var rekið fyrir Héraðsdómi Reykjaness.
Málið var rekið fyrir Héraðsdómi Reykjaness. Vísir/Hari
Mexíkóskur karlmaður var í Héraðsdómi Reykjaness í gær dæmdur í 10 mánaða fangelsi fyrir að flytja hingað til lands 371,34 grömm af kókaíni í apríl síðastliðnum.

Maðurinn játaði brot sitt fyrir dómi en hann var hnepptur í gæsluvarðhald daginn eftir að hann kom til landsins. Gæsluvarðhaldsvistin á Litla-Hrauni kemur til frádráttar refsingunni.

Ákæra í málinu var gefin út sex dögum áður en dómur var kveðinn upp en samkvæmt henni á maðurinn að hafa staðið að innflutningi á kókaíninu hingað til lands, að beiðni annars nafngreinds manns, og fengið greitt fyrir.

 

Styrkleiki efnisins var 72-74 prósent og var það falið í golfkylfum sem maðurinn flutti til landsins. Var ætlunin að selja efnið hér á landi í ágóðaskyni.



Maðurinn var eins og áður segir dæmdur í 10 mánaða fangelsi en dóm héraðsdóms má sjá hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×