Enski boltinn

Costa aftur hetja Chelsea

Tottenham, Chelsea og Everton unnu góða sigra í annari umferð ensku úrvalsdeildarinnar í knattspyrnu í dag.

Everton kom til baka eftir að hafa lent 1-0 undir gegn WBA. Gareth McAuley kom WBA yfir, en Kevin Mirallas jafnaði í uppbótartíma fyrri hálfleiks.

Það var svo miðjumaðurinn og leikjahæsti leikmaður ensku úrvalsdeildarinnar, Gareth Barry, sem skoraði sigurmarkið í sínum 100. leik fyrir Everton.

Everton með fjögur stig eftir fyrstu tvo leikina, en WBA er með þrjú stig.

Diego Costa varð aftur hetja Chelsea og aftur kom sigurmarkið á lokamínútum leiksins, en Chelsea vann 2-1 sigur á Watford.

Etienne Capoue kom Watford yfir á 55. mínútu leiksins og þannig stóðu leikar allt þangað til á 80. mínútu þegar varamaðurinn Michy Batshuai jafnaði metin.

Áðurnefndur Diego Costa skoraði svo sigurmarkið þremur mínútum fyrir leikslok og Chelsea er með sex stig eftir leikina tvo. Watford er með eitt stig.

Victor Wanyama skoraði sigurmark Tottenham sjö mínútum fyrir leikslok, en markið kom eftir undirbúning frá enska framherjanum Harry Kane.

Tottenham er með fjögur stig, en Palace er enn án stiga í úrvalsdeildinni þetta árið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×