Sport

Conor McGregor um Sunnu: „Engin spurning að hún verður meistari“

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Sunna Rannveig Davíðsdóttir, Evrópumeistari áhugamanna í MMA, berst í fyrsta sinn sem atvinnumaður í Kansas annað kvöld þegar hún mætir Ashley Greenway á bardagakvöldi Invicta FC.

Búið er að gefa út stutta heimildamynd um Sunnu sem er framleidd af Bakland en í henni er farið stuttlega yfir feril sunnu og spjallað við æfingafélaga hennar og vini.

Sjá einnig:Sunna Rannveig: „Það er eitthvað við það þegar búrið lokast“

Einn þeirra sem tjáir sig um Sunnu og möguleika hennar sem bardagakona í framtíðinni er sjálfur Conor McGregor, skærasta stjarnan í UFC, en hann er mikill Íslandsvinur og góðvinur Gunnars Nelson til margra ára.

„Hún verður meistari í framtíðinni. Það er engin spurning. Hún leggur mikið á sig,“ segir Conor, en einnig er spjallað við Gunnar Nelson og þjálfara þeirra beggja, John Kavanagh.

„Ég man þegar ég kom hingað fyrir mörgum árum þá var Sunna hérna og alltaf þegar ég kem aftur er hún búin að bæta sig,“ segir Írinn.

Sjá einnig:Stærsti bardaginn var við sorgina

„Hún hefur þennan ákafa sem bardagamaður verður að hafa og er virkilega spennandi efni í 115 punda deild kvenna. Það verður tekið eftir henni hvert sem hún fer.“

„Þetta er stórt skref hjá henni að vera komin í Invicta en hún er meira en tilbúin fyrir þessa áskorun. Ég hlakka til að sjá hvernig henni gengur og að styðja hana alla leið,“ segir Conor McGregor.

Sunna Rannveig verður vigtuð í kvöld en fyrsti atvinnumannabardaginn fer svo fram annað kvöld.

Heimildamyndina má sjá hér að neðan.

MMA

Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×