Lífið

Cee Lo eyðir Twitter-síðunni eftir nauðgunarummæli

Þórður Ingi Jónsson skrifar
Green fyrir utan dómshúsið í Los Angeles í seinustu viku.
Green fyrir utan dómshúsið í Los Angeles í seinustu viku. Getty
Bandaríski söngvarinn Cee Lo Green er hættur á Twitter eftir að hafa velt fyrir sér skilgreiningunni á nauðgun á síðunni sinni.

Green var ákærður fyrir nauðgun árið 2012 en hann var sakaður um að setja MDMA í drykk hjá konu á veitingastað í Los Angeles og að nauðga henni á meðan hún var meðvitundarlaus.

Lögfræðingar hans segja að Green hafi haft samþykki konunnar en hún segist þó ekki muna neitt eftir kvöldinu. Nauðgunarkæran var látin niður falla vegna skorts á sönnunargögnum. Green var hins vegar dæmdur fyrir vörslu vímuefna og fékk hann því þriggja ára skilorð. Hann þarf einnig að sinna samfélagsþjónustu í 45 daga.

Eftir fyrirtöku dómstóla á málinu fór Green mikinn á Twitter-síðu sinni. „Fólki sem hefur í alvörunni verið nauðgað – MUNIÐ!!! Ef einhver er meðvitundarlaus er viðkomandi ekki einu sinni MEÐ þér! Svo að MEÐ gefur til kynna samþykki.“ Þessi undarlega setning fékk ansi dræm viðbrögð á Twitter.

Green hélt áfram að rökræða þetta við fólk á síðunni en endaði síðan á því að skrifa afsökunarbeiðni og eyða síðunni sinni. „Vinsamlegast fyrirgefið mér þar sem það var stuðningur ykkar sem kom mér í gegnum þetta til að byrja með. Ég myndi aldrei samþykkja það að beita konur ofbeldi. Takk fyrir.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×