Enski boltinn

Carrick, Rojo, Jones og Blind missa allir af Chelsea-leiknum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Michael Carrick og Louis van Gaal.
Michael Carrick og Louis van Gaal. Vísir/AFP
Manchester United verður án mikilvægra leikmanna í varnarleik liðsins í leiknum á móti Chelsea í ensku úrvalsdeildinni um helgina.

Manchester United heimsækir Chelsea á Stamford Bridge á morgun en leikurinn hefst klukkan 16.30.

Knattspyrnustjórinn Louis van Gaal, staðfesti á blaðamannafundi í dag, að þeir Michael Carrick, Marcos Rojo, Phil Jones og Daley Blind munu allir missa af leiknum vegna meiðsla. Daley Blind er meiddur á ökkla, Michael Carrick er í vandræðum með kálfa, Phil Jones er slæmur í ökklanum og þá er Marcus Rojo með magavandamál.

Michael Carrick, Phil Jones og Daley Blind voru allir í byrjunarliðinu í sigrinum á Manchester City en Marcos Rojo kom inn á sem varamaður fyrir Jones á 75. mínútu. United endaði leikinn manni færri því Michael Carrick þurfti að fara meiddur af velli.

Jonny Evans er enn í leikbanni og því er þunnskipaður hópur sem Van Gaal hefur úr að velja þegar kemur að því stilla upp öftustu línum United-liðsins.

Manchester United hefur unnið sex leiki í röð í ensku úrvalsdeildinni og er átta stigum á eftir toppliði Chelsea sem á reyndar leik inni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×