Körfubolti

Carmen Tyson Thomas telur niður dagana þar til að hún fær íslenskan ríkisborgararétt

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Carmen Tyson Thomas.
Carmen Tyson Thomas. Vísir/Eyþór
Carmen Tyson Thomas, langstigahæsti leikmaður Domino´s deildar kvenna í körfubolta, hefur sett stefnuna á það að spila með íslenska landsliðinu í framtíðinni.

„Ég í raun tel niður dagana þangað til ég get sótt um." sagði Carmen í viðtali við Karfan.is. Íslenska kvennalandsliðið hefur aldrei spilað með leikmann sem hefur fengið íslenskt ríkisfang eftir að hafa komið hingað til að spila. Nokkrir slíkir leikmenn hafa hinsvegar spilað með karlalandsliðinu.

„Ég hef 100% áhuga á því að sækja um og hef heyrt að það sé möguleiki á næsta ári. Það væri þá heiður í kjölfarið ef ég yrði þá valin að spila með íslenska landsliðinu. Spila með öllum þeim bestu á landinu í einu liði færi draumur fyrir mig og að spila fyrir landið sem ég elska,“ bætti Carmen við í þessu athyglisverða viðtali.

„Ég kom hingað í nóvember 2014 þannig að þriðja ár mitt er byrjað hér á landinu. Það yrði vissulega draumur ef þetta yrði að veruleika." sagði Carmen í viðtalinu.

Carmen Tyson Thomas er með 38,9 stig, 16,3 fráköst og 4,6 stoðsendingar að meðaltali í sjö leikjum með nýliðum Njarðvíkur í Domino´s deildinni í vetur.  Hún hefur skorað tíu stigum meira að meðaltali en sú sem er í 2. sæti á listanum yfir flest stig skoruð í leik.

Njarðvík vann fjóra af þessum sjö leikjum en hefur tapað síðustu tveimur án hennar með samtals 50 stigum. Tyson Thomas meiddist á hné í bikarleik á móti Grindavík og hefur ekki spilað síðan.

Tyson Thomas hefur skorað 47,8 stig að meðaltali í sigurleikjum Njarðvíkurliðsins í vetur og því skiljanlegt að liðinu gangi illa án hennar.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×