Innlent

Byrjað að skammta mjólk á Seyðisfirði

Hver viðskiptavinur fær bara að kaupa einn lítra af mjolk í kaupfélaginu á Seyðisfirði
Hver viðskiptavinur fær bara að kaupa einn lítra af mjolk í kaupfélaginu á Seyðisfirði
Ófært hefur verið á Seyðisfjörð síðustu þrjá daga og því engar nýjar vörur í verslunum bæjarins. Af þessari ástæðu er nú svo komið að farið er að skammta mjólkina.

Hjá Samkaupum Strax fengust þær upplýsingar að örfáir mjólkurlítrar séu eftir í versluninni og því fær hver aðeins að kaupa einn lítra í einu. Sömu sögu er að segja hjá Söluskála Shell.

Ekkert nýtt brauð hefur heldur borist til Seyðisfjarðar síðustu daga en í kaupfélaginu er til frosið brauð, auk þess sem bæjarbúar hafa verið duglegir að baka. Enginn þarf því að líða skort þó veður hamli ferðalögum.

Skólafólk sem býr á Seyðisfirði en er við nám annars staðar hefur sumt hvert tafist vegna veðursins og misst af fyrstu skóladögunum.

Engin fæðingadeild er á Seyðisfirði en konur fara þaðan til Neskaupsstaðar þegar þær eru að fara að eiga. Eftir því sem fréttastofa kemst næst er þó engin kona sem nú er stödd á Seyðisfirði sett á næstu dögum og sú sem er komin hvað lengst á leið ætlað að eiga barn í febrúar.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×