Innlent

Byggingarmagn eykst um 73 prósent milli ára

Óli Kristján Ármannsson skrifar
Hljómalindarreitur Laugavegur Hverfisgata byggingar byggingaframkvæmdir Hótel.
Hljómalindarreitur Laugavegur Hverfisgata byggingar byggingaframkvæmdir Hótel.
Í fermetrum talið var samþykkt bygging á ellefu sinnum meira magni íbúðarhúsnæðis en hótelbygginga í Reykjavík á síðasta ári. Þetta er meðal þess sem lesa má úr nýútkominni ársskýrslu Byggingarfulltrúans í Reykjavík fyrir árið 2015.

Eins má lesa úr gögnum Byggingarfulltrúa að frá árinu 1972 sé síðasta ár í fjórða sæti hvað varðar fjölda íbúða sem hafin hafi verið bygging á á árinu. Einungis voru fleiri íbúðir í byggingu árin 2005, 1986 og 1973.



„Á árinu 2015 var hafin smíði á 926 nýjum íbúðum. Að jafnaði frá árinu 1972 var hafin smíði á 609 íbúðum á ári,“ segir í skýrslunni, en þegar þær voru flestar 1973 var hafin smíði á 1.133 íbúðum. „Fæstar voru þær yfir árin 2009 til 2011 þar sem hafin var smíði á 159 íbúðum árið 2009, einungis 10 íbúðum árið 2010 og 113 árið 2011.“

Að sögn Byggingarfulltrúa er á síðasta ári um að ræða töluverða aukningu í byggingu nýrra íbúða frá síðastliðnum árum. „Samþykkt byggingarmagn í byggingaráformum í Reykjavík á árinu 2015 var fyrir um 235 þúsund fermetra og 912 þúsund rúmmetra fyrir allt húsnæði.“

Fram kemur að byggingaráform íbúðarhúsnæðis hafi verið um 64 prósent alls byggingarmagns. „Til samanburðar var samþykkt byggingmagn árið 2014 fyrir um 136 þúsund fermetra og 531 þúsund rúmmetra fyrir allt húsnæði. Aukning á samþykktu byggingarmagni á milli ára var um 73 prósent eða nærri tvöföld aukning og margföld ef miðað er við árið 2010 þegar einungis um 18 þúsund fermetrar og 68 þúsund rúmmetrar voru samþykktir.“

Samþykkt byggingarmagn árið 2015 er sagt nærri sambærilegt og það hafi verið yfir árin 2000 til 2008 þegar að jafnaði um 265 þúsund fermetrar og 1.270 þúsund rúmmetrar voru samþykktir.

Fram kemur í ársskýrslunni að á síðasta ári hafi verið samþykkt byggingaráform fyrir 969 nýjar íbúðir. Af þeim eru 926 í fjölbýlishúsum, þar af 102 stúdentaíbúðir. Síðan er 30 í raðhúsum, sex í tvíbýlishúsum og sjö í einbýlishúsum. „Til samanburðar voru 562 nýjar íbúðir samþykktar árið 2014, 441 árið 2013, 444 árið 2012, 114 árið 2011, 27 árið 2010, 125 árið 2009, 490 árið 2008, 427 árið 2007 og 573 íbúðir skráðar árið 2006,“ segir í skýrslu Byggingarfulltrúa.

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu 1. apríl.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×