Lífið

Buxnahvíslarinn bjargaði andarungum

Nanna Elísa Jakobsdóttir skrifar
Parið á það sameiginlegt að þiggja vænt um dýrin og vilja aðstoða málleysingjana eins og hægt er.
Parið á það sameiginlegt að þiggja vænt um dýrin og vilja aðstoða málleysingjana eins og hægt er. Vísir/Joshua
Joshua Reuben David, betur þekktur undir heitinu Buxnahvíslarinn, bjargaði átta andarungum nýverið sem villst höfðu frá andamömmu sinni.

Joshua hefur vakið athygli fyrir ótrúlega hæfileika þegar kemur að því að finna rétt snið og rétta stærð á gallabuxum. Um hann hefur verið fjallað í Bakþönkum í Fréttablaðinu og þar var því velt upp hvort Joshua byggi yfir sjötta skilningarvitinu.

Sjá einnig: Buxnahvíslarinn vekur athygli

„Ég og konan mín vorum á leið inn í Hafnarfjörð úr Garðabæ þegar bíllinn á undan mér snarhemlar skyndilega í undirgöngum. Þá voru fyrir framan bílinn fullt af andarungum ráfandi um eins og ég veit ekki hvað. Konan í bílnum á undan okkur stöðvar og reynir að koma í veg fyrir að andarungarnir fari yfir veginn,“ útskýrir Joshua.

Litlu ungarnir voru lafhræddir og rammvilltir.Vísir/Joshua
„En einn hleypur yfir á vinstri akreinina og bílarnir sem eru þar eru ekkert að hægja á sér. Ég hugsa bara: „Ó, nei ég er að fara að horfa á andarunga að verða fyrir bíl.“ En hann fer akkúrat á milli hjólanna einhvern veginn og nær yfir götuna sem betur fer.“

Kona Joshua hleypur út úr bílnum, stekkur yfir akreinina og athugar með andarungann sem reynir að fela sig í grasinu handan akreinarinnar. „Við erum miklir dýravinir ég og frúin,“ segir Joshua. Hann segir nokkra vegfarendur hafa stöðvað bíla sína og upphófst löng leit á svæðinu í kring til þess að ganga úr skugga um að allir andarungarnir hefðu nú fundist.

Sjá einnig: Brókin sem breytti lífi mínu

Sjálfboðaliðar frá Project Henry kallaðir á staðinn

„Það verður einhver að standa upp fyrir þessa litlu málleysingja. Við fundum þá í grasinu þar sem þeir voru allir búnir að hjúfra sig saman.“

Guðmundur Fylkisson tók þessa mynd eftir að hann hafði fundið andamömmu og komið ungunum í rétta vængi.Mynd/Guðmundur Fylkisson
Joshua hringdi þvínæst í lögregluna og þeir kölluðu til sjálfboðaliða á vegum samfélagsþjónustuverkefnisins Project Henrý sem snýr að því að hlúa að fuglum á svæðinu. Sjálfboðaliðinn Guðmundur Fylkisson kom á staðinn og tók við andarungunum sem þau hjónin höfðu komið fyrir í kassa.

Samkvæmt heimildum fréttastofu tókst að finna andamömmu en Guðmundur tók eftir hringsólandi hrafnsönd sem hann elti niður í fjöru. Þá kom hrafnsöndin sem faldi sig fyrst fyrir aftan stein í fjörunni að vitja tístandi unganna sinna, Guðmundur sleppti þeim og þeir syntu á brott með mömmu sinni.

Hrafnsönd er á íslenskum válista vegna þess hve lítill varpstofninn er.

Joshua veit allt um gallabuxur en líka eftir hverju viðskiptavinurinn er að leita.Vísir/GVA
Buxnahvíslarinn leggur buxurnar á hilluna í sumar

Af Buxnahvíslaranum er það annars að frétta að hann hyggst venda sínu kvæði í kross og leggja gallabuxurnar á hilluna allavega næsta árið. „Já ég hætti núna 20. ágúst, nú hefst nýr kafli í mínu lífi,“ segir Joshua en hann hefur starfað í Levi‘s búðinni síðastliðin ár og vakið mikla lukku viðskiptavina.

„Ég er svo mikið fyrir að drepa fólk á aldrinum 12 til 25 ára á netinu,“ segir Joshua en hann segist vera mikill áhugamaður um tölvuleiki. „Ég er náttúrulega ekki að tala um að kála fólki í alvörunni, ég er mikill friðarsinni. En ég er að fara í nám erlendis í að hanna tölvuleiki.“ Joshua flytur því í Vancouver í ágúst og ljóst er að hver fer að verða síðastur til að finna hinar fullkomnu gallabuxur með hjálp Buxnahvíslarans.

„Lífið snýst um að hafa gaman. Eins gaman og það er að selja gallabuxur og eiga samskipti við fólk þá hefur það verið ástríða mín að spila tölvuleiki. Nú langar mig að prófa eitthvað nýtt og ef það gengur ekki upp þá bara í versta  falli kem ég aftur og fer að selja gallabuxur.“


Tengdar fréttir

Brókin sem breytti lífi mínu

Fátt þykir mér hvimleiðara á þessari kringlu sem við búum á en að fara í Kringluna. Verst af öllu eru fatakaupin, því þótt vissulega sé gaman að vera nýskæddur er umstangið sem því fylgir yfirleitt til ama.

Buxnahvíslarinn vekur athygli

Joshua Reuben David er mesti sérfræðingur landsins í gallabuxum og hefur einstaka hæfileika til að finna réttu buxurnar fyrir viðskiptavininn. Hann segir að konur taki of stórt númer af gallabuxum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×