Erlent

Búast við flótta vegna loftslagsbreytinga

Ingibjörg Bára Sveinsdóttir skrifar
Hafís bráðnar hratt á norðurslóðum vegna loftslagsbreytinga.
Hafís bráðnar hratt á norðurslóðum vegna loftslagsbreytinga. NORDICPHOTOS/AFP
Innanríkisráðherra Bandaríkjanna, Sally Jewell, sagði í nýlegri heimsókn sinni til Kanada að stjórnvöld þyrftu að búa sig undir straum flóttamanna af svæðinu kringum norðurheimskautið vegna loftslagsbreytinga. Hægt væri að stemma stigu við hlýnuninni og áhrifum hennar ef gripið yrði til aðgerða en breytingarnar væru þegar hafnar og þær gerðust hratt.

Jewell benti á að flytja þyrfti íbúa í bænum Kivalina, sem er á sandrifi við strandlengjuna í Alaska, á brott frá heimkynnum sínum. Vegna bráðnunar hafíss stafar íbúunum hætta af hækkuðu yfirborði sjávar. Búist er við svipuðum aðstæðum annars staðar í Alaska og Kanada, að því er segir á fréttavef The Guardian.

Haft er eftir innanríkisráðherranum að stjórnmálaleiðtogar verði að bregðast við og styðja aðgerðir til að búa samfélagið betur undir loftslagsbreytingarnar. Bent er á að hingað til hafi repúblikanar verið andvígir fjárframlögum í þessu skyni.

Umhverfisráðherra Kanada, Catherine McKenna, sagði loftslagsbreytingar ekki bara snúast um þiðnandi sífrera, heldur hafi þær gríðarleg áhrif á lifnaðarhætti.

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu 3. maí




Fleiri fréttir

Sjá meira


×