Innlent

Brynjar stofnar Félag fýlupúka

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Brynjar Níelsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, stofnaði í hádeginu í dag Félag fýlupúka ásamt nokkrum öðrum í þingflokki Sjálfstæðismanna. Frá þessu greinir þingmaðurinn í færslu á Facebook-síðu sinni en þar segir reyndar einnig að tveimur tímum síðar hafi félagsskapurinn verið kominn í upplausn út af deilum um það hver ætti að vera formaður.

„Sumir vildu láta lengd þingferils ráða en aðrir töldu að sá ætti að vera formaður sem væri í mestri fýlu. Ekki var komin niðurstaða í málið þegar þetta fór í prentun,“ segir í færslu þingmannsins en rætt  var við Brynjar um þessa færslu í útvarpsþættinum Reykjavík síðdegis núna áðan.

Aðspurður hvort að Haraldur Benediktsson og Páll Magnússon væru með honum í stjórninni hló Brynjar við og sagði að færslan væri reyndar öll lygi. Brynjar hefur þó, líkt og Páll, gagnrýnt ráðherraval flokksins og sagt að hann hefði sjálfur gjarnan viljað verða ráðherra.

Þannig hefur Brynjar sjálfur lýst því hvað hann teldi að ætti að ráða við val á ráðherrum, það er þekking, reynsla og pólitískt umboð og telur hann að það hafi ekki verið farið eftir því að öllu leyti nú. Á móti hefur verið bent á að einnig þurfi að líta til annarra sjónarmiða, til að mynda aldurs og kyns ráðherra.

„Það hefur komið fram að nokkrir voru kannski ekki alveg sáttir við allt eins og gengur og það er í sjálfu sér ekkert nýtt og ekkert óeðlilegt við það en svo heldur lífið áfram og þá þurfa menn að fara úr fýlunni,“ sagði Brynjar.

Hann sagði að aðalatriðið væri að hér væri ríkisstjórn og að þetta væri niðurstaðan en viðtalið við Brynjar má hlusta á í spilaranum hér að ofan.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×