Innlent

Bryan Adams segir ótrúlegt að Ísland eigi svona demant

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Bryan Adams á tónleikunum í Hörpu í kvöld.
Bryan Adams á tónleikunum í Hörpu í kvöld. Mynd/Sigríður Atladóttir
Rokkarinn Bryan Adams fór á kostum á fyrri tónleikum sínum í Eldborgarsal Hörpu í kvöld samkvæmt þeim tónleikagestum sem Vísir hefur heyrt hljóðið í.

Kanadíski hjartaknúsarinn var sérstaklega ánægður með hljóminn í Hörpu. Hafði hann á orði að hann væri búinn að ferðast um allan heim á tónleikaferðalagi sínu en tvö tónleikahús bæru af. Annars vegar sjálft óperuhúsið í Sydney og hins vegar Harpa. Bætti hann við að það væri með ólíkindum að svo fámenn þjóð ætti „svona demant“.

Hvort Adams hafi átt við glæsileika húsanna eða hljómburðinn skal ósagt látið. Óperuhúsið í Sydney hefur löngum verið lofað fyrir glæsileika á meðan fólk hefur keppst við að gagnrýna hljómburðinn í því. Leikarinn John Malkovich svaraði gagnrýni á eigin frammistöðu í húsinu á dögunum á þann veg að hljómburðurinn í húsinu væri verri en í flugskýli.

Adams er á ferðalagi um heiminn ásamt píanóleikara á svokölluðum Bare Bones-túr. Njóta áhorfendur mikillar nálægðar við söngvarann á tónleikunum þar sem hann spjallar við fólk sem biður jafnvel um óskalög á tónleikunum. Svo vel seldist á tónleikana í kvöld að blásið var til aukatónleika sem fram fara annað kvöld. Uppselt er á aukatónleikana.

Frá tónleikunum í Eldborg í kvöld.Vísir/JKJ
Bryan Adams og Eldborgarsalurinn í Hörpu.Vísir/Getty



Fleiri fréttir

Sjá meira


×