Enski boltinn

Brugghús og bakarí á nýja leikvangi Tottenham

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Vísir/Samsett/Getty
Enska úrvalsdeildarliðið Tottenham Hotspur er að byggja nýjan leikvang og hefur nú gefið út myndir og upplýsingar um leikvanginn sem er verið að byggja í Norðurhluta London.

Leikvangurinn mun taka 61 þúsund manns í sæti og verður stærsti fótboltaleikvangurinn í London eftir að hann verið tekinn í notkun.

Leikvangurinn mun einnig bjóða upp á ýmislegt sem þú sérð ekki á öðrum fótboltaleikvöngum. BBC segir frá.

Þar verður lengsti almenningsbar á leikvangi í Bretlandi (86,8 metrar), lúxussætin verða upphituð og þá verður þarna örbrugghús og bakarí.

Stjórnarformaðurinn Daniel Levy er sannfærður um að þessi nýi leikvangur muni endurskilgreina bæði upplifun af íþróttum og öðrum skemmtunum sem munu fara fram á leikvanginum.

Fótboltaleikirnir munu verða spilaðir á grasi en það verður hægt að taka það í burtu og undir verður sérstakt gervigras fyrir NFL-leikina sem mun fara fram á vellinum.

Leikmannagöngin verða gerð úr gleri þannig að áhorfendur geta séð það þegar leikmenn eru að undirbúa sig að ganga inn á völlinn.

Stærsta stúkuhólfið á vellinum mun taka sautján þúsund manns í sæti og verður það stærsta á leikvangi í Bretlandi.

Nýi leikvangurinn er byggður við hlið White Hart Lane og mun á endanum „gleypa“ gamla leikvanginn. Tottenham mun því spila á öðrum velli á næsta tímabili.

Hér fyrir neðan má sjá kynningarmynd af nýja Tottenham-leikvanginum. Hér má líka finna allt um leikvanginn á heimasíðu Tottenham.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×