Innlent

Breytingar hjá Google bitna illa á sumum heimasíðum

Breytingarnar taka gildi í dag.
Breytingarnar taka gildi í dag.
Tölvurisinn Google ætlar í dag að gera töluverðar breytingar á þeim reikniaðferðum sem leitarvél fyrirtækisins notast við. Leitarvélin, sem er sú langvinsælasta í heimi, notast við algóritma til að skila niðurstöðum sínum og munu breytingarnar hafa töluverð áhrif.

Mestu áhrifin eru þau að þær heimasíður sem henta illa til aflestrar í farsímum og öðrum smátölvum, færast neðar í listann yfir leitarniðurstöður þegar leitað er í snjalltækjum. Er talið að þetta geti haft töluverð áhrif á umferð fólks inn á þær síður sem ekki hafa aðlagað sig að spjaldtölvunum og snjallsímunum.

Fyrirtækið tilkynnti um þessar fyrirhuguðu breytingar í febrúar og því hafa fyrirtæki aðeins haft tvo mánuði til að bregðast við. Á heimasíðu Google er hægt að kanna hvort tiltekin síða henti vel til aflestrar á slíkum tækjum og á meðal þeirra stofnana og fyrirtækja sem fá falleinkun má nefna Evrópusambandið og Microsoft.

Í stuttri könnun fréttastofu nú í morgun kom einnig í ljós að heimasíður Stjórnarráðs Íslands, Veðurstofunnar og Háskóla Íslands fá falleinkunn í slíku prófi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×