Innlent

Breytingar á kvótakerfinu má ekki bara skoða út frá hagfræði

Svandís Svavarsdóttir, umhverfisráðherra og starfandi menntamálaráðherra.
Svandís Svavarsdóttir, umhverfisráðherra og starfandi menntamálaráðherra. Mynd/Valli
Svandís Svavarsdóttir, umhverfisráðherra, segir að breytingar á kvótakerfinu eigi ekki einungis að skoða út frá hagfræði. Einnig verði að huga að samfélagslegum breytingum. Hún hefur fulla trú á að umtalsverðar breytingar verði gerðar á kvótakerfinu.

Sérfræðinganefnd Jóns Bjarnasonar, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, gagnrýnir frumvarp ráðherrans um breytingar á stjórn fiskveiða harðlega. Frumvarpið gerir nýliðun í greininni erfiða og álögur á útgerðina verður of miklar, að mati sérfræðinganna. Jón skipaði hópinn í apríl til að fara yfir hagræna þætti frumvarps hans um breytingar á stjórn fiskveiða. Niðurstöðurnar voru gerðar opinberar í síðustu viku. Frumvarið er nú til umfjöllunar í sjávarútvegsnefnd Alþingis eftir fyrstu umræðu.

Svandís var gestur í þætti Sigurjóns M. Egilssonar á Bylgjunni í dag. Þar var hún spurð út í niðurstöður sérfræðinganna. Hún sagði flesta þá sem gagnrýnt hafa frumvarpið horfa á það út frá hagfræði. „Hagfræðileg úttekt er bara ein af mörgum sjónarhornum á breytingum á kerfi. Við þurfum líka að horfa mjög stíft og skýrt á samfélagslegu áhrifin."

Þá sagði hún Vesturlandabúa einblína of mikið á hagfræði þegar kemur að því að stýra samfélögum. Það væri aðferð sem hefði ekki endilega gefist mjög vel. „Ég held að það þurfi að horfa til fleiri þátta og það sem rekur áfram þessa breytingar eru ákveðin samfélagsleg rök og við skulum spyrja að leikslokum með það," sagði Svandís og bætti við að hún hefði fulla trú á því að umtalsverðar breytingar á kvótakerfinu verði að lokum samþykktar á Alþingi.


Tengdar fréttir

Falleinkunn á frumvarp Jóns

Frumvarp Jóns Bjarnasonar sjávarútvegsráðherra um stjórn fiskveiða fær afar harða gagnrýni frá sérfræðihópi sem Jón skipaði.

Vill sjá hausa fjúka

„Í ríkisstjórnum þar sem menn gerðu faglegar kröfur og kysu gagnsæ vinnubrögð væru hausar farnir að fjúka, eftir þá útreið sem sjávarútvegsstefna ríkisstjórnarinnar hefur fengið," segir Einar K. Guðfinnsson, þingmaður Sjálfstæðisflokks og fyrrverandi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, um skýrslu hagfræðinga um kvótfrumvarp ríkisstjórnarinnar. Sérfræðinganefndin gagnrýnir frumvarp núverandi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, Jóns Bjarnasonar, um breytingar á stjórn fiskveiða harðlega. Frumvarpið geri nýliðun í greininni erfiða og álögur á útgerðina verði of miklar, að mati sérfræðinganna.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×