Innlent

Braut af sér degi eftir að dómur féll

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
Hæstiréttur Íslands.
Hæstiréttur Íslands. vísir/gva
Karlmaður sem dæmdur var í tólf mánaða fangelsi fyrir þjófnað hinn 24. júní síðastliðinn var í Hæstarétti í dag dæmdur í tuttugu og þriggja daga gæsluvarðhald fyrir að hafa stolið úr verslun Apóteksins hinn 25. júní, degi eftir að dómur féll, og úr verslun Lyfju viku síðar.

Manninum er gefið að sök að hafa stungið inn á sig vörum úr Apótekinu að verðmæti 6.229 krónum og vörum úr Lyfju að verðmæti 67.333 krónum. Hann hafði skorið þjófavörn af vörunum en var stöðvaður eftir að hann yfirgaf verslunina. Hann viðurkenndi þjófnaðinn.

Í skýrslutöku lögreglu kvaðst maðurinn vera atvinnulaus og í daglegri neyslu fíkniefna sem hann fjármagni að hluta til með þjófnaði.

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu skaut máli hans til Hæstaréttar 4. júlí og krafðist þess að maðurinn yrði færður í gæsluvarðhald. Maðurinn mótmælti þeirri kröfu og krafðist þess að henni yrði hafnað.

Frá árinu 2012 hefur maðurinn fimm sinnum hlotið fangelsisdóma.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×