Innlent

Borgin eflir upplýsingagjöf til innflytjenda

Atli Ísleifsson skrifar
Á annað hundrað manns sóttu fundinn sem fram fór í gær.
Á annað hundrað manns sóttu fundinn sem fram fór í gær. Mynd/Reykjavíkurborg
Fyrsti sameiginlegi fundur fjölmenningarráðs Reykjavíkurborgar og borgarstjórnar var haldinn í Tjarnarsal ráðhússins í gær.

Í frétt á vef borgarinnar segir að fundurinn hafi verið vel sóttur og rúmlega hundrað manns tekið þátt.

„Fundurinn hófst á því að borgarstjóri, Dagur B. Eggertsson flutti erindi um stefnumörkun í málefnum innflytjenda í Reykjavík. Í máli borgarstjóra kom fram að hann sé stoltur af fjölmenningarborginni Reykjavík þar sem virkur stuðningur, samtal og upplýsingagjöf á sér stað.

Borgarstjóri sagði að ýmislegt væri nú þegar í vinnslu sem myndi styrkja Reykjavík sem fjölmenningarborg. Verið væri að leggja lokahönd á nýjan vef á ensku um alla þjónustu borgarinnar. Í upphafi nýs árs yrði bæklingnum Living in Reykjavík dreift til allra nýrra íbúa í borginni en árlega koma um 11 þúsund nýir íbúar til Reykjavíkur eða flytja á milli hverfa.  Bæklingurinn verður bæði á íslensku og ensku og verður fyrsta tenging borgarinnar við þá íbúa sem hingað flytja. Verkefnið tengist þátttöku borgarinnar í fjölmenningarborgum (e. Intercultural Cities) og hefur að markmiði að taka betur á móti nýjum íbúum en í honum eru íbúar boðnir velkomnir til borgarinnar.

Samhliða útgáfu bæklingsins og vefsíðunnar hefst ný tegund af ráðgjafarþjónustu sem unnin verður í samstarfi mannréttindaskrifstofu, velferðarsviðs og skóla- og frístundasviðs. Í fyrstu verður verkefnið til reynslu í þrjá mánuði. Sex til sjö ráðgjafar verða staðsettir í Ráðhúsi Reykjavíkur, nánar tiltekið í kaffihúsinu, en íbúar af erlendum uppruna geta komið alla þriðjudagsmorgna og fengið ráðgjöf um þjónustu borgarinnar og fleira sem þeir óska eftir.  Enginn kostnaðarauki verður af þessu verkefni þar sem starfsmenn borgarinnar, frá þjónustumiðstöðvum velferðarsviðs, skóla og frístundasviðs og mannréttindaskrifstofu veita ráðgjöfina. Samhliða því munu þessir starfsmenn fá aukna þekkingu á því hvernig þjónusta á ólíka hópa fólks af erlendum uppruna. Þjónustan verður veitt á nokkrum tungumálum,“ segir í fréttinni.

Tomasz Chrapek, formaður fjölmenningarráðs, tók einnig til máls og sagði frá helstu verkefnum ráðsins og kynnti helstu niðurstöður fjölmenningarþings.

„Þá tóku sviðsstjórar allra fagsviða borgarinnar  til máls og sögðu frá því hvað verið væri að gera á þeirra sviðum til þess að tryggja þátttöku og þjónustu við innflytjendur í Reykjavík.

Undir liðnum Raddir innflytjenda tóku til máls Ania Wozniczka og Angelique Kelley og sögðu frá W.O.M.E.N sem eru samtök kvenna af erlendum uppruna. Renata Pesková frá samtökunum Móðurmál flutti erindi og að lokun kynnti Anna Wojtynska helstu niðurstöður rannsóknar á húsnæðismálum meðal Pólverja í Reykjavík,“ segir í fréttinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×