Innlent

Borgin annast útigangsmenn

Nadine Guðrún Yaghi skrifar
Neyðarskýli fyrir karla.
Neyðarskýli fyrir karla. VÍSIR/GVA
Velferðarsvið Reykjavíkur tekur við rekstri Gistiskýlisins á Lindargötu. Tillaga þar að lútandi var samþykkt á fundi velferðarráðs borgarinnar í gær. Tillagan var samþykkt með fjórum atkvæðum fulltrúa meirihlutans en fulltrúar Sjálfstæðisflokks greiddu atkvæði á móti.

„Þeir hjá Samhjálp hafa staðið sig vel og að sjálfsögðu á að veita þriðja aðilanum tækifæri,“ segir Börkur Gunnarsson, fulltrúi Sjálfstæðisflokks í velferðarráði, sem telur ákvörðun velferðarráðs fráleita.

„Þetta hefði verið skiljanleg ákvörðun ef miklu hefði munað á tilboðum þeirra sem buðu í reksturinn, en það hljóp aðeins á nokkur hundruð þúsund krónum.“

Börkur segir muninn hafa verið svo lítinn á tilboðunum að það geti ekki hafa haft áhrif á ákvarðanatökuna.

S. Björn Blöndal, formaður borgarráðs og fulltrúi Bjartrar framtíðar í velferðarráði, segir hagkvæmara að borgin sjái um reksturinn þar sem örlítið dýrara sé fyrir hana að fela öðrum hann.

„Það má spyrja sig hvort ekki sé alveg eins gott að borgin sjái um reksturinn fyrst enginn fjárhagslegur ávinningur er af því að fela hann góðgerðarsamtökum,“ segir Björn.

Ákvörðunina eigi að endurmeta eftir tvö ár, þegar frekari reynsa sé komin á reksturinn.



„Ég er fullviss um að faglega muni borgin standa mjög vel að þessu verkefni,“ bætir Björn við.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×