Innlent

Borgarstjóri setti Sri Chinmoy hlaupið við Tjörnina

Bjarki Ármannsson skrifar
Dagur B. Eggertsson borgarstjóri með Friðarkyndilinn.
Dagur B. Eggertsson borgarstjóri með Friðarkyndilinn. Vísir/GVA
Sri Chinmoy heimseiningar Friðarhlaupið hófst í dag með opnunarathöfn við Tjörnina í Reykjavík. Dagur B. Eggertsson borgarstjóri setti hlaupið við friðartré Reykjavíkurborgar, sem gróðursett var árið 2013.

Hlaupið mun standa yfir til 24. júlí og mun tólf manna hópur hlaupa á milli byggða með logandi kyndil. Sá kyndill kallast Friðarkyndillinn og var kveikt á honum í ísgöngunum í Langjökli á mánudag.

Hlaupið fer ekki aðeins fram á Íslandi, heldur í um hundrað löndum, og mun tilgangur þess vera að efla frið, vináttu og skilning manna og menningarheima á milli. Hlaupið var fyrst haldið árið 1987 og hefur Ísland verið með frá upphafi.

Við opnunarathöfnina var meðal annars haldin friðarstund og kyndillinn látinn ganga manna á milli, þar á meðal fulltrúa allra heimsálfanna í táknrænni athöfn. 

Sri Chinmoy, stofnandi hlaupsins, var indverskur tónlistarmaður, gúrú og kraftlyftingamaður sem lést árið 2007. Hann nýtur talsverðra vinsælda hér á landi og fyrir stuttu óskaði Sri Chinmoy-miðstöðin eftir því að fá að reisa þrettán metra háa styttu af gúrunum við Esjurætur.

Dagur hljóp táknrænan hring ásamt alþjóðlega Friðarhlaupsliðinu, krökkum af leikskólanum Tjarnarborg og stúlkum úr 4. flokki Vals.Vísir/GVA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×