Erlent

Borgaralegi flokkurinn Gerb sigraði í búlgörsku þingkosningunum

Atli Ísleifsson skrifar
Hinn 57 ára Borisov hefur lengi verið mest áberandi maðurinn í búlgörskum stjórnmálum.
Hinn 57 ára Borisov hefur lengi verið mest áberandi maðurinn í búlgörskum stjórnmálum. Vísir/AFP
Mið-hægriflokkurinn Gerb vann sigur í búlgörsku þingkosningunum sem fram fóru í gær. Boyko Borisov, sem sagði af sér sem forsætisráðherra í janúar, segir að hann líti á niðurstöðu kosninganna sem áskorun til sín um að mynda nýja ríkisstjórn.

Hinn 57 ára Borisov hefur lengi verið mest áberandi maðurinn í búlgörskum stjórnmálum og hefur þannig gegnt forsætisráðherraembættinu frá 2009 til 2013 og aftur frá 2014 til janúarmánaðar 2017. Á árunum 2005 til 2009 gegndi hann embætti borgarstjóra höfuðborgarinnar Sofiu, en á sínum yngri árum starfaði hann sem lífvörður kommúnistaleiðtogans Todor Zhivkov.

Samkvæmt fyrstu tölum stefndi í að Gerb, sem jákvæður er í garð Evrópusambandsins, fengi 33 prósent atkvæða, en Sósíalistaflokkurinn 28 prósent. Kornelia Ninova, leiðtogi sósíalista, hefur þegar viðurkennt ósigur.

Allt frá því að Rumen Radev, sem talinn er hliðhollur Rússum, var kjörinn forseti í nóvember síðastliðinn hefur mikil óvissa verið í búlgörskum stjórnmálum þar sem embættismenn hafa stýrt landinu síðustu mánuði eftir að Borisov sagði af sér í janúar.

Þingkosningarnar voru þær þriðju í landinu á fjórum árum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×