Körfubolti

Bonneau sleit hásin í hægri fæti

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Stefan Bonneau er með slitna hásin í hægri fæti en það staðfesti Gunnar Örlygsson, formaður körfuknattleiksdeildar Njarðvíkur, í samtali við Vísi í kvöld.

Bonneau var að spila sinn fyrsta leik í vetur eftir að hann sleit hásin í vinstri fæti á undirbúningstímabilinu í haust. Síðan þá hefur hann verið í endurhæfingu í Njarðvík.

Bonneau náði aðeins að spila í þrjár mínútur og 37 sekúndur í kvöld áður en hann meiddist. Á þeim tíma náði hann ekki að skora stig, en tók eitt frákast og gaf eina stoðsendingu.

Sjá einnig: Bonneau fór meiddur af velli

„Ég fékk þær fréttir af spítalanum áðan að Stefan er með slitna hásin í hinum fætinum,“ sagði Gunnar þegar Vísir heyrði í honum í kvöld. „Það er eins sorglegt og það getur orðið, miðað við það ferli sem hann hefur verið í að undanförnu.“

„Við erum einfaldlega að taka utan um strákinn. Þetta er gríðarlegt sjokk og maður skilur þetta ekki alveg. Af hverju gerist þetta fyrir sama manninn eftir aðeins þrjár mínútur.“

Njarðvíkingar hafa verið með Bonneau hjá sér í allan vetur eftir að hann meiddist og Gunnar segir að það muni áfram standa honum til boða að vera í endurhæfingu í Njarðvík.

„Við viljum taka fram að okkur þykir jafn vænt um þennan fót og hinn. Við munum taka strákinn að okkur og hlúa að honum, alveg eins og áður,“ segir Gunnar.

„Þetta er ótrúlega svekkjandi. Maður er bara orðlaus. Hann var tilbúinn enda hefði hann aldrei farið í búning öðruvísi, án þess að fá grænt ljós frá sjúkraþjálfara. Það er ekkert við þá að sakast.“

„Nú er mitt fólk hjá honum. En Stefan er sterkur karakter og kann að brosa í gegnum vandræðin. Ég fékk fregnir af því strax.“

„Auðvitað er hann í áfalli en það eina sem við getum gert núna er að hugsa um hann. Við hugsum vel um okkar stráka og skiptir engu máli hvort þeir heita Stefan Bonneau eða ekki. Nú þarf hann á hjálp að halda og við munum veita hana.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×