Innlent

Bölvaðirðu vinnunni í dag? Forfeður þínir fengu frí fram á fimmtudag

Stefán Ó. Jónsson skrifar
„Þessi niðurfelling helgidaga hafa fallið íslenskum jarðeigendum vel í geð, en vinnufólki miður.“
„Þessi niðurfelling helgidaga hafa fallið íslenskum jarðeigendum vel í geð, en vinnufólki miður.“ VÍSIR/VILHELM/GETTY
Íslendingar hafa eflaust margir hverjir bölvað því að þurfa að mæta aftur til vinnu eftir hátíðahöld hinnar þriggja daga löngu hvítasunnuhelgar.

Þeir geta þakkað það iðjuleysi forfeðra sinna en langt fram eftir öldum fögnuðu Íslendingar ekki einungis öðrum í hvítasunnu heldur einnig þeim þriðja, og jafnvel fjórða - allt þangað til Danakonungur tók upp hanskann fyrir atvinnurekendur og skikkaði fólk aftur til vinnu.

Hvítasunnudagur var, og er, einn af þremur helstu atburðum kirkjuársins og er haldinn hátíðlegur til að minnast heilags anda og stofnunar kristinnar kirkju. Gyðingar minnast þess einnig að á þessum degi afhenti guð Mósesi boðorðin tíu á Sínaí-fjalli.

Í bókinni Sögu Daganna greinir Árni Björnsson frá því að allt fram undir lok 12. aldar hafi verið þrí- og jafnvel fjórheilagt á hvítasunnu - það er, að Íslendingar hafi lagt niður störf allt fram á fjórða dag hvítasunnu. Þegar fram var komið á 13. öld hafi þó ekki verið nema tvíheilagt fram til siðaskipta því nauðsynlegt var fyrir hið íslenska bændasamfélag að nýta sem best hið stutta sumar hér á landi með því að takmarka helgi hátíðarinnar.

Kristján sjöundi Danakonungur ríkti frá 1766 til 1808MYND/WIKIPEDIA
Lengd hvítasunnuhelgarinnar breyttist aftur við siðaskiptin en í skipan frá Danakonungi frá árinu 1537 var að ákveðið að kristilegu stórhátíðarnar þrjár; páskar, jól og hvítasunna skyldu allar vera þríhelgar. Hafði það í för með sér að hátíðahöld jóla og páska voru stytt um einn dag en hvítasunnuhátíðin lengd sem því nam. 

Það fyrirkomulag entist í rétt rúm 200 ár þegar þriðji helgidagurinn var numinn af öllum hátíðunum þremur árið 1770 ásamt helgi annarra hátíðisdaga -þeirra á meðal þrettándanum sem einnig hafði verið helgi-og frídagur. Ákvörðunin var gefin út í nafni Danakonungs, sem þá var Kristján sjöundi, en í henni segir meðal annars

Þar sem reynslan sýnir eins og oftar að þótt stofnun slíkra daga hafi eflaust átt sér gott og guðlegt markmið hafa þeir fremur orðið tilefni til iðjuleysis og þeirra lasta annarra sem þar af stafar en til sannrar og alvarlegrar guðsdýrkunar.

Ástæður þessarar styttingar telur Árni Björnsson þó vera af veraldlegri toga: „hinir mörgu helgidagar hlutu að vera þyrnir í augum þeirra sem högnuðust á sem mestu striti vinnufólks.“  Hugmyndir upplýsingarinnar um hagnýtingu voru farnar að ryðja sér til rúms í Evrópu og víst má því telja að „þessi niðurfelling helgidaga hafa fallið íslenskum jarðeigendum vel í geð, en vinnufólki miður.“

Hvort íslenskir atvinnurekendur nútímans séu á sama máli og landeigendur átjándu aldar skal þó ósagt látið. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×