Körfubolti

Bogut til varnar mótherja sínum í úrslitum NBA | Þetta fólk er fífl

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Andrew Bogut og Kevin Love í baráttunni undir körfunni.
Andrew Bogut og Kevin Love í baráttunni undir körfunni. Vísir/Getty
Andrew Bogut, miðherji Golden State Warriors, þekkir það vel á eigin skrokki að glíma við afleiðingar heilahristings og Ástralinn kom til varnar Kevin Love í viðtölum við blaðamenn eftir leik þrjú.

Kevin Love gat ekki spilað með liði Cleveland Cavaliers í leik þrjú en það skipti ekki miklu máli því liðfélagar hann lönduðu sannfærandi 30 stiga sigri.

Það er ekki enn ljóst hvort Kevin Love fái grænt ljós til að spila með Cleveland Cavaliers í fjórða leiknum í kvöld en sumir bandarískir blaðamenn hafa velt því fyrir sér hvort væri ekki betra fyrir Cavs að spila án hans.

Kevin Love var mjög pirraður út í þá ákvörðun að gefa honum ekki grænt ljós í leik þrjú en Andrew Bogut, mótherji hans í Golden State Warriors liðinu skilur Love vel.

Andrew Bogut missti af tveimur vikum í október og nóvember eftir að hafa fengið högg á höfuðið í fyrsta leik tímabilsins. Hann sjálfur kallaði þetta verstu meiðsli ferilsins og það þrátt fyrir að allt NBA-körfuboltaáhugafólk muni enn eftir því þegar hann datt illa á handlegginn árið 2010.

„Það er örugglega til fólk sem kallar Kevin Love linan en það fólk er fífl. Þú fíflast ekkert með heilann," sagði Andrew Bogut við blaðmann ESPN.

„Þú getur leikið einhverja hetju í úrslitum NBA árið 2016 en árið 2021 verður þú kannski að neita matarins í gegnum rör. Þá skiptir þig engu máli hvað þú gerðir árið 2016," sagði Andrew Bogut.

Andrew Bogut segir að það sé rík ástæða fyrir því kerfið sé til staðar sem metur leikhæfi manna sem hafa fengið heilahristing. Það þurfi stundum að passa leikmenn sem geta verið sínir verstu óvinir á stundum sem þessum.

Fjórði leikur Golden State Warriors og Cleveland Cavaliers fer fram í kvöld á heimavelli Cleveland og verður sýndur beint á Stöð 2 Sport en útsendingin hefst klukkan eitt eftir miðnætti.



NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×