Innlent

Boða drátt á meðlögunum í desember

Hanna Rún Sverrisdóttir skrifar
Gunnar Kristinn Þórðarson er formaður Samtaka meðlagsgreiðenda.
Gunnar Kristinn Þórðarson er formaður Samtaka meðlagsgreiðenda. Fréttablaðið/Daníel
Samtök meðlagsgreiðenda hafa ákveðið að boða til greiðsluhlés meðlaga í desember ef hið opinbera vill ekki semja við þau.

Samtökin munu hvetja meðlagsgreiðendur til að draga greiðslur meðlaga til Innheimtustofnunar sveitarfélaganna um fjórar vikur.



Gunnar Kristinn Þórðarson, formaður Samtaka meðlagsgreiðenda, áréttar að gagnaðilar samtakanna í þessari deilu séu stofnanir sveitarfélaganna.

„Samtökin vilja að réttur barna til þess að umgangast báða foreldra sína sé virtur og að tekið sé tillit til lögboðinna skyldna meðlagsgreiðenda til þess að sinna uppeldisskyldum sínum. Auk þess vilja samtökin að öll viðmið sem lögð eru til grundvallar ívilnunum til handa meðlagsgreiðendum séu opinber og gagnsæ,“ segir Gunnar.

Gunnar nefnir sem dæmi félagsmann hjá samtökunum sem er með 220 þúsund krónur útborgaðar á mánuði. Þegar maðurinn sem borgar meðlag með tveimur börnum hefur greitt meðlagið, auk skuldar við Innheimtustofnun og leigu upp á 100 þúsund krónur, eigi hann 45 þúsund eftir til að framfleyta sér og og kosta umgengni við börnin sín.



„Eins og staðan er í dag er ekki tekið tillit til ráðstöfunartekna meðlagsgreiðenda heldur heildarlauna,“ segir Gunnar. Þá eigi þessi maður ekki rétt á fjárhagsaðstoð þar sem félagsþjónustan lítur á hann sem barnslausan einstakling sem hafi 220 þúsund krónur til ráðstöfunar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×