Lífið

Blogg með skeggjuðum Íslendingum

Ása Ottesen skrifar
Patrick Moriearty kom til Íslands sem skiptinemi og byrjaði í framhaldinu að blogga um íslensk skegg.
Patrick Moriearty kom til Íslands sem skiptinemi og byrjaði í framhaldinu að blogga um íslensk skegg. MYND/EINKASAFN
„Ég eyddi miklum tíma á kaffihúsum og börum og tók eftir því hversu margir karlmenn höfðu víkingaútlit,“ segir ljósmyndarinn og neminn Patrick Moriearty, sem heldur úti bloggsíðunni Beards In Iceland.

Á síðunni birtir hann myndir af skeggjuðum, íslenskum karlmönnum. „Ég spurði þá hvort ég mætti taka andlitsmynd af þeim, og þá aðallega af skegginu, og flestir tóku mjög vel í það. Áður en ég vissi var ég kominn með stórt safn af myndum sem mig langaði til að deila með heiminum og þar með kviknaði hugmyndin að blogginu.“

Moriearty, sem er frá Wisconsin í Bandaríkjunum, kom til Íslands sem skiptinemi árið 2012 og stundaði nám í landafræði við Háskóla Íslands. Þegar hann kom hingað vissi hann lítið um Ísland en varð fljótt hrifinn af landi og þjóð.

Aðspurður segir hann íslenska karlmenn frábrugðna karlmönnum frá heimabæ hans. „Karlmenn í Reykjavík eru mun meðvitaðri um tískuna. Þeir hafa einstakan stíl og miðað við þau lönd í Evrópu sem ég hef heimsótt held ég að íslenskir karlmenn eyði mestum tíma af öllum í að hugsa um hár sitt og útlit. Einkennilegast fannst mér hvað Carhartt-úlpur þykja „inn“ í Reykjavík. Í Wisconsin sér maður bara verkamenn, bændur og fólk af lægri stéttum ganga í þessum úlpum,“ segir hann.

Moriearty er nýfluttur heim til Wisconsin þar sem hann stefnir á að ljúka námi í landafræði og halda áfram að taka myndir. „Ég ætla að halda áfram með bloggið og stefni á að koma aftur til Íslands innan skamms. Brennivínið fer alveg að klárast svo ég verð eiginlega að komast fljótt aftur,“ segir hann og hlær.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×