Innlent

Blóðbankinn kallar eftir blóðgjöfum áður en haldið er í sumarfrí

Nanna Elísa Jakobsdóttir og Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifa
Það er mikilvægt að Blóðbankinn eigi nóg af blóði á lager.
Það er mikilvægt að Blóðbankinn eigi nóg af blóði á lager. Vísir/Hari
„Spítalinn sefur ekki og ekki blóðþegarnir. Þeir þurfa alltaf blóð það er bara þannig,“ segir Jórunn Ósk Frímannsdóttir Jensen, deildarstjóri blóðsöfnunardeildar. Blóðbankinn kallar í dag eftir því að blóðgjafar komi og gefi blóð áður en þeir halda í sumarfrí.

„Staðan er allt í lagi, við getum orðað það þannig. En við þurfum að hafa mikið fyrir því að halda henni þannig,“ útskýrir Jórunn. Hún segist vilja minna blóðgjafa á að koma áður en þeir halda úr byggð eða af landi brott.

„Við förum ekkert í frí. Það er bara ekkert í boði.“

Jórunn hvetur líka þá sem staddir eru á Norðurlandi til að fara í blóðbankann þar og láta gott af sér leiða.

„Auðvitað kemur það fyrir að það komi upp neyðarástand en það er ofboðslega sjaldgæft. En auðvitað rokkar lagerinn upp og niður. Við gerum þá bara það sem þarf, við gerum það alltaf og þá liggja hér fleiri og fleiri manns í símanum ef ekkert er að koma hérna inn. Það er ekki alveg orðið þannig núna,“ segir Jórunn en bætir við að starfsfólk yrði rosalega fegið ef tækist að safna vel í lagerinn áður en vinsælasti sumarfrístími landsmanna skellur á í júlí.

Blóðgjafar úr öllum blóðflokkum eru hvattir til að koma í Blóðbankann, gefa blóð og fá sér hressingu að því loknu. Ekki er vöntun í neinum sérstökum blóðflokki.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×