Fótbolti

Björn Daníel kom AGF á bragðið í stórsigri

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Björn Daníel er kominn með tvö mörk fyrir AGF á tímabilinu.
Björn Daníel er kominn með tvö mörk fyrir AGF á tímabilinu. vísir/getty
Björn Daníel Sverrisson skoraði eitt marka AGF í stórsigri á Horsens á útivelli í dönsku úrvalsdeildinni í fótbolta kvöld. Lokatölur 1-5, AGF í vil.

Björn Daníel kom AGF yfir á 39. mínútu með sínu öðru marki á tímabilinu. Gestirnir bættu svo tveimur mörkum við áður en fyrri hálfleikurinn var allur. Duncan kom AGF í 2-0 á 43. mínútu og mínútu síðar skoraði Mustafa Amini þriðja markið.

Kjartan Henry Finnbogason kom inn á sem varamaður í liði Horsens á 54. mínútu og stundarfjórðungi síðar kom hann boltanum í markið og minnkaði muninn í 1-4. Markið var þó bara smá sárabót. Duncan skoraði tvö mörk í seinni hálfleik og fullkomnaði þrennuna. Öruggur 1-5 sigur AGF staðreynd.

Björn Daníel fór af velli á 75. mínútu. Theodór Elmar Bjarnason var einnig í byrjunarliði AGF en var tekinn út af þegar níu mínútur voru til leiksloka.

Með sigrinum fór AGF upp í 9. sæti deildarinnar en Horsens er í því sjöunda.

Fyrr í kvöld tapaði Randers 2-1 fyrir Aalborg á útivelli.

Hannes Þór Halldórsson var á sínum stað í marki Randers sem er í 3. sæti deildarinnar með 32 stig, 11 stigum á eftir toppliði FCK. Ólafur Kristjánsson er þjálfari Randers sem mætir Bröndby í næstu umferð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×