Handbolti

Björgvin Páll: Hef þekkt Gunna þjálfara frá því að ég var smápjakkur

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Björgvin Páll Gústavsson.
Björgvin Páll Gústavsson. Vísir/Getty
Björgvin Páll Gústavsson ætlar að spila með Haukum í Olís-deildinni næsta vetur og snýr því til baka í íslensku deildina eftir níu ára fjarveru. Björgvin Páll fór vel yfir ástæðurnar á fésbókarsíðu sinni í morgun.

„Draumaklúbburinn minn þessa stundina eru Haukar og liggja margar ástæður þar að baki. Ég hef þekkt Gunna þjálfara frá því að ég var smápjakkur og hefur hann bæði þjálfað mig í yngri flokkunum ásamt því að hafa verið aðstoðarþjálfari hjá mér í landsliðinu til margra ára. Eins og hann sagði sjálfur þá höfum við líklega farið í fleiri utanlandsferðir saman en með konunum okkar,“ skrifaði Björgvin Páll.

„Ég hleraði aðra klúbba heima en setti fókusinn strax á einn klúbb þar sem að Haukar meikaðu mest sens (eins og maður segir á góðri íslensku) fyrir mig sem markmann, sem aðstoðarþjálfara, sem markmannsþjálfara og einnig fæ ég útrás fyrir markaðsperrann í mér hjá Haukum. Þannig að ég fæ að njóta mín á fleiri stöðum en bara inni á vellinum og get ég ekki beðið eftir því að vinna með þessu frábæra liði og frábæra fólki í kringum liðið,“ skrifaði Björgvin Páll.

Björgvin Páll Gústavsson hefur verið leikmaður þýska liðsins Bergischer HC það sem af er tímabilsins og það vekur athygli að hann tilkynnir núna að hann ætli að hætta hjá liðinu.

„Tímasetningin á ákvörðuninni er frekar óvenjuleg þar sem að tímabilið er nýbyrjað í Þýskalandi miklar hreyfingar á markmannsmarkaðnum í Evrópu næstu 5-6 mánuðina. Ég var hinsvegar það sáttur með þessa ákvörðun að ég var tilbúinn að taka hana strax og gaf frá mér ýmsa nokkuð spennandi kosti, sem ég hefði ekki trúað fyrir stuttu síðan að ég myndi gefa frá mér,“ skrifaði Björgvin Páll ennfremur í þessum athyglisverða pistli inn á fésbókinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×