Lífið

Bjóða upp á hraðstefnumót þar sem fólk er með hauspoka

Lilja Katrín Gunnarsdóttir skrifar
vísir/getty
Fyrirtækið Loveflutter er byrjað að bjóða viðskiptavinum sínum upp á sérstaka þjónustu - að fara á hraðstefnumót með poka á hausnum.

Á hraðstefnumótinu fara þátttakendur á þrjátíu stefnumót á sextíu mínútum þannig að hvert stefnumót er um tvær mínútur. Áður en hraðstefnumótið hefst fá allir þátttakendur bréfpoka og efnivið til að skreyta hann eins og þeim finnst best. Þátttakendur fá hálftíma til að skreyta pokana og eru þeir hvattir til að tjá persónuleika sinn í skreytingunum.

Loveflutter ákvað að bjóða upp á þessa tegund af hraðstefnumótum svo fólk gæti kynnst persónuleika fólks en ekki einblínt strax á útlit. 

Leikarinn Shia LaBeouf gæti fílað sig á svona hraðstefnumóti enda elskar hann að vera með poka á hausnum.vísir/getty
Blaðakonan Lane Moore hjá tímaritinu Cosmopolitan fór á svona hraðstefnumót fyrir stuttu og segir frá reynslunni á vef tímaritsins.

„Auðvitað voru einhverjir skrýtnir og það komu óþægilegar stundir, eins og þegar einn gaur talaði bara um hvað hann elskaði kvenmannsföt í allar tvær mínúturnar,“ skrifar hún. „Ég ímynda mér að hann hafi bara verið stressaður,“ bætir hún við en segir jafnframt að hana hafi langað til að eyða meira en tveimur mínútum með mörgum út af því að hún sá ekki andlit þeirra. Allt í allt var hún ánægð með lífsreynsluna.

„Ég verð að segja að ég kunni eiginlega að meta það að fara á stefnumót með poka á hausnum. Í fyrsta lagi var ég nýkomin úr vinnu og var ekkert máluð, en hverjum yrði ekki sama? Ég yrði með bréfpoka á hausnum allan tímann. Það yrði frábært að vera á stefnumóti og þurfa ekki að hafa áhyggjur af hvort farðinn væri í lagi eða hvort ég væri búin að rústa augnmálningunni eða ef að ég þyrfti að bæta á varalitinn. Það sást í augu mín og munn þó ég væri með bréfpokann. En mér fannst ég samt vera að fela mig á svalan hátt. Mér fannst ég vera andlitslaus, eins og ég gæti verið ég sjálf og þeir gætu metið mig eftir því.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×