Íslenski boltinn

Bjarni aftur í Lautina

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Bjarni er kominn aftur til Fylkis.
Bjarni er kominn aftur til Fylkis. mynd/fylkir
Markvörðurinn Bjarni Þórður Halldórsson er genginn í raðir Fylkis á ný eftir eins árs dvöl hjá Aftureldingu.

Bjarni, sem er 33 ára, skrifaði undir tveggja ára samning við Fylki.

Árbæjarliðið féll úr Pepsi-deildinni í sumar eftir 16 ára samfellda dvöl í deild þeirra bestu. Eftir tímabilið tók Helgi Sigurðsson við þjálfun liðsins af Hermanni Hreiðarssyni.

„Það er frábært að fá Bjarna heim, uppalinn í félaginu og með mikla reynslu. Það er mikill styrkur að fá leikmenn aftur í félagið, það segir okkur að hér líður þeim vel. Nú eru við komnir með tvo öfluga markmenn og það skiptir okkur miklu máli í baráttunni sem framundan er,“ segir Helgi í tilkynningu frá Fylki.

„Ég er gífurlega ánægður og stoltur af því að skrifa undir samning við Fylki í dag og hlakka mikið til þess að taka þátt í stórafmælisárinu 2017. Það er von mín og trú að á þessum undarlegu tímum muni allir Árbæingar fylkja sér á bak við liðið og styðja það sem aldrei fyrr. Í sameiningu munum við sjá til þess að sumarið verði eftirminnilegt, fullt af gleði og að stórveldið Fylkir komi sér aftur í fremstu röð. Fylkir – Stoltur – Alltaf,“ er haft eftir Bjarna sem hefur leikið 111 leiki fyrir Fylki í efstu deild.


Tengdar fréttir

Hermann Hreiðarsson hættur með Fylki

Hermann Hreiðarsson hefur hætt þjálfun knattspyrnuliðs Fylkis sem féll úr Pepsi-deild karla í sumar. Fylkir sendi út tilkynningu þess efnis rétt í þessu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×