Innlent

Birta myndir af atkvæðum á samfélagsmiðlum

Lillý Valgerður Pétursdóttir skrifar
Dæmi um birtingu myndar á facebook.
Dæmi um birtingu myndar á facebook. MYND/Stöð 2
Dæmi er um að kjósendur, sem kosið hafa utan kjörfundar í forsetakosningunum, hafi birt myndir af atkvæðum sínum á samfélagsmiðlum. Oddviti yfirkjörstjórnar segir athæfið refsivert.

Um fimm þúsund manns hafa greitt atkvæði utan kjörfundar hjá Sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu en um einn og hálfur mánuður er síðan að atkvæðagreiðslan hófst. Hægt er að kjósa í Perlunni og er kjörsókn með besta móti. „Hún er nú dálítið meiri heldur en hefur verið og mér sýnist EM hafa verulega þýðingu í því sambandi,“ segir Bergþóra Sigmundsdóttir sviðstjóri þinglýsinga- og leyfasviðs hjá Sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu.

Undanfarið hefur nokkuð verið um að fólk dreifi myndum af atkvæðum sínum úr kjörklefanum á samfélagsmiðlum. „Þetta er í sjálfu sér refsivert athæfi. Þetta varðar sektum ef að fólk sýnir hvernig það hefur kosið. Þannig að það er hægt að beina kærum til lögreglu ef að slíkt athæfi er uppvíst,“ segir Erla S. Árnadóttir oddviti yfirkjörstjórnar í Reykjavíkurkjördæmi norður.

Erla segist þó ekki vita dæmi þess að sektum hafi verið beitt.  Bergþóra segir þetta vandamál sem hafi orðið til með aukinni notkun snjallsíma. „Við reyndum hérna eitt árið að fólk þurfti að skila símanum hérna, af því að við urðum vör við það þá, en okkur fannst það fullmikil harka að taka símann af fólki og við treystum því að fólk slökkvi á sínum símum eins og um er beðið,“ segir Bergþóra.

Erla telur að þessa myndbirtingu ekki hafa afdrifarík áhrif á kosningarnar.„Það er þannig í forsetakosningum að Hæstiréttur á úrskurðarvald um kærur vegna framkvæmdar kosninganna en mér finnst nú kannski ólíklegt að nokkur svona tilfelli varði ógildinu á kosningunni sem slíkri,“ segir Erla. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×