Fótbolti

Birkir: Kári Árna mest pirrandi mótherjinn

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Birkir Bjarnason í leiknum á móti Tyrklandi á dögunum.
Birkir Bjarnason í leiknum á móti Tyrklandi á dögunum. vísir/ernir
Uppáhaldslið Birkis Bjarnason, landsliðsmanns í fótbolta, er Manchester United. Þetta kemur fram í nærmynd sem er dregin upp af Akureyringnum á vefsíðunni kaffið.is.

Birkir er fæddur á Akureyri og er sonur Höllu Halldórsdóttur og fyrrverandi markahróksins Bjarna Sveinbjörnssonar, en bæði spiluðu fyrir meistaraflokk Þórs.

Þessi 28 ára gamli miðjumaður er svissneskur meistari með Basel og að spila í Meistaradeildinni, en í nærmyndinni þar sem hann svarar nokkrum spurningum um sjálfan sig segir hann að komast ekki í Meistaradeildina í fyrra með Basel séu mestu vonbrigðin á ferlinum.

Birkir segir Cristiano Ronaldo vera besta leikmann sem hann hefur mætt á ferlinum en Birkir og Ronaldo áttust við í fyrsta leik Íslands á EM í Frakklandi í sumar. Birkir skoraði þar mark Íslands í 1-1 jafntefli sem átti stóran þátt í að koma íslenska liðinu í 16 liða úrslitin.

Aðspurður hver sé mest pirrandi andstæðingurinn segir Birkir: „Kári Árna á æfingum.“ Víkingurinn er ekki þekktur fyrir að gefa mikið eftir hvort sem það er á æfingum eða í leik.

Ef Birkir mætti vera atvinnumaður í annarri íþrótt en fótbolta væri hann körfuboltamaður, að hans eigin sögn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×