Innlent

Birgitta kveikti áhuga á Íslandsför

Garðar Örn Úlfarsson skrifar
Kanadamaðurinn Roy Albrecht er á Íslandi í leit að griðastað til að segja sínar skoðanir án þess að sæta ofsóknum ráðandi afla.
Kanadamaðurinn Roy Albrecht er á Íslandi í leit að griðastað til að segja sínar skoðanir án þess að sæta ofsóknum ráðandi afla. Fréttablaðið/Vilhelm

„Ég veðja tíu dölum á móti einum að ritstjórinn þinn leyfir þér aldrei að prenta þetta viðtal,“ sagði Kanadamaðurinn og rithöfundurinn Roy Albrecht á tjaldstæðinu í Laugardal í gær.

Albrecht kvaðst kominn til Íslands í von um fullt tjáningarfrelsi, ólíkt því sem gerist í Kanada þar sem útgefendur séu jafnvel fangelsaðir. Málefnin sem honum eru hugleikin eru áhrif gyðinga í vestrænum samfélögum og helför gyðinga í síðari heimstyrjöldinni – sem hann sagði ekki hafa átt sér stað.

„Árið 2010 sá ég viðtal við Birgittu Jónsdóttur í sjónvarpsstöðinni TVO í Ontario í Kanada þar sem hún ræddi IMMI – The Icelandic Modern Media Initiative – sem veitir eins konar pólitískt hæli fyrir blaðamenn og rithöfunda sem verða fyrir árásum vegna skrifa um „stóru stráka glæpamennina“, þessa sem litli maðurinn getur ekki varið sig gegn. Síðan þá hef ég lesið um Ísland og skoðað möguleikann á því að flytja hingað,“ sagði Albrecht, sem kvað margt sem ráðandi öfl vilja ekki að sé í opinberri umræðu.

„Þau beita meðal annars ofsóknum með málsóknum þar sem sá efnaminni tapar á endanum jafnvel aleigunni og tíu árum af lífi sínu hvort sem hann vinnur málið eða ekki,“ útskýrði Albrecht. Þegar útsendarar Fréttablaðsins rákust á Albrecht í Laugardal kvaðst hann hafa verið þar í viku. Vegna lasleika og síðan hryssingslegs veðursins hafi hann að mestu haldið sig í hlýjunni í tjaldinu.

„Heima í Ontario eru hlutirnir eins og klukkuverk. Hér er allt síbreytilegt og mjög ruglandi. Eilífur dagur og sólin brýst jafnvel fram klukkan ellefu að kvöldi,“ sagði Albrecht. Foreldrar Albrechts voru að hans sögn Þjóðverjar sem hröktust á flótta frá Súdetahéruðunum. Hann kvaðst gjarnan vilja setjast að í Þýskalandi jafnvel þótt þar í landi væru enn strangari viðurlög en í Kanada við því að tjá sig um málefni gyðinga. Það væri hins vegar torsótt. „Ég er alls ekki kynþáttahatari,“ ítrekaði Albrecht.

„En vestræn samfélög hvítra manna eru mjög sérstök og þeir eiga rétt á að vernda þau. Ekki leyfa Kínverjar Evrópubúum að setjast að í sínu landi í stórum stíl,“ sagði Albrecht, sem kvaðst afar hrifinn af Íslendingum. „Miðað við hinn almenna Kanadamann er hinn almenni Íslendingur algjörlega af efstu hillu. Við fyrstu sýn virðist mér vera hágæða mannkyn hér á Íslandi,“ segir Roy Albrecht, sem enn sem komið er hefur lítið farið úr tjaldi sínu í Laugardal.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×